2.2.2014 kl. 17:29
Stefán, Dagur og Björn efstir á Nóa Síríus mótinu
Stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2491) og alþjóðlegu meistararnir Dagur Arngrímsson (2381) og Björn Þorfinnsson (2387) eru efstir og jafnir með 3,5 vinning að lokinni fjórðu umferð Nóa Síríus-mótsins – Gestamóts GM Hellis og Breiðabliks sem fram fór sl. fimmtudagskvöld. Afar óvænt úrslit urðu í umferðinni þegar Björgvin S. Guðmundsson (1914) vann Einar Hjalta Jensson (2347).
Tveimur skákum í umferðinni var frestað í umferðinni sem gætu haft áhrfi á röð efstu manna. Skák Braga Þorfinnssonar (2454) og Björgvins Jónssonar (2340) var frestað en þeir hafa báðir fullt hús og því ljóst að a.m.k. annar þeirra verður toppnum. Einnig var skák Davíð Kjartanssonar (2336) og Jóns Viktors Gunnarssonar (2412) frestað en þeir hafa báðir 2,5 vinning.
Á efstu borðunum vann Stefán Elvar Guðmundsson (2322), Björn stöðvaði sigurgöngu Þrastar Árnarsonar (2267) með sigri og Dagur hafði betur gegn Þorsteini Þorsteinssyni (2243) í lengstu skák umferðarinnar.
Sem fyrr var töluvert um óvænt úrslit. Má þar nefna Hrafn Loftsson (2192) gerði jafntefli við Karl Þorsteins (2452), landsliðskonan Tinna Kristín Finnbogadóttir (1917) gerði jafntefli við landsliðsþjálfara kvenna Davíð Ólafsson (2316) og Mikael Jóhann Karlsson (2057) vann Sigurð Pál Steindórsson (2240).
Næsta umferð
Fimmta umferð fer fram á fimmtudagskvöldið í Stúkunni í Kópavogi. Þá mætast meðal annars:
Björn – Stefán, Dagur – Bragi, Björgvin J. – Jón Viktor, Sigurður Daði – Lenka og Björgvin S. – Elvar Guðmundsson.