Fidemeistarinn öflugi, viðskiptafræðingurinn og hvalfangarinn, Þorsteinn Þorsteinsson, er genginn í skákfélagið Hugin. Þorsteinn er sannkallaður hvalreki fyrir félagið enda bæði snjall skákmaður og ötull félagsmálamaður. Þannig mun Þorsteinn jöfnum höndum tefla fyrir hönd Hugins, annast liðsstjórn og taka sæti í öldungaráði félagsins.

Þorsteinn  hóf feril sinn í TR á Grensáveginum árið 1971, þá 11 ára. Hann tilheyrir þeirri kynslóð ungra skákmanna sem stigu sín fyrstu skref í TR eftir heimsmeistareinvígi Fischers og Spassky. Þar má m.a. nefna Margeir Pétursson, Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson, Karl Þorsteins, Sævar Bjarnason, Ómar Jónsson, Elvar Guðmundsson, Benedikt Jónasson, Gísla Hjaltason, Ásgeir Þ. Árnason, Ögmund Kristinsson, Kristján Guðmundsson, Róbert LagermannGuðna Sigurbjarnarson, Jón. S. Halldórsson og Þröst Bergmann en þrír hinir síðastnefndu eru látnir.

Kristján Már Unnarsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Þröstur Bergmann heitinn, Hilmar Hansson og Guðmundur Gunnlaugsson.
Sigurvegar í skákkeppni gagnfræðaskólanna 1974: Kristján Már Unnarsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Þröstur Bergmann heitinn, Hilmar Hansson og Guðmundur Gunnlaugsson.

Þorsteinn ólst upp í Safamýrinni eins og Jóhann Hjartarson og fleiri sterkir skákmenn enda hrifsaði Álftamýrarskóli til sín svo til alla skólatitla á þessum árum. Mikil skákmenning blómstraði í hverfinu og nánast var teflt í hverju húsi, enda nálægðin við TR á gullaldarárum félagsins til þess fallin. Árið 1977 varð Þorsteinn unglingameistari Íslands undir 20 ára en Jóhann Hjartarson og Karl Þorsteins höfnuðu í 2. – 3. sæti. Þorsteinn tefldi lítið næstu árin þar á eftir en 10 árum síðar var Jóhann hins vegar orðinn einn af allra bestu skákmönnum heims.

Þorsteinn stundaði háskólanám í Svíþjóð á árunum 1991-1996 og lauk þar meistaragráðu í rekstrahagfræði. Þorsteinn tefldi mikið á þessu tímabili, bæði í sænsku deildarkeppninni, sænska meistaramótinu og á fjölmörgum mótum eins og Rilton Cup. Hann vann nokkur mót á þessum árum og var oftar en ekki í toppbaráttunni í öðrum.

ÞÞSpániÁrið 1997 fluttist Þorsteinn aftur heim til Íslands. Hann tók þátt í landsliðsflokknum á Akureyri sama ár og hafnaði í miðjum hópi en Þorsteinn hefur alls teflt 5 sinnum í landsliðsflokki. Hann var í sigursveit TR í deildarkeppninni 1998-1999. Árið 2009 gekk Þorsteinn í raðir Taflfélags Vestmannaeyja (TV) þar sem hann tefldi með liðinu og var liðsstjóri. Sama ár vann félagið sig upp í efstu deild og síðan þá hefur félagið orðið í 2. eða 3. sæti ár hvert. Segja má að Þorsteinn hafði átt hvað mestan heiður af því að byggja upp það sterka lið sem TV varð á þessum árum.

Þorsteinn tefldi síðast á alþjóðlegu móti í Ortisei á Ítalíu árið 2012 og var þar hársbreidd frá því að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Hann hefur síðan þá snúið sér í auknum mæli að bréfskák og er í dag með stigahæstu bréfskákmönnum landsins.

Hvítanes, hernámsminjar Þorsteinn Þorsteinsson
Hernámsminjar á Hvítanesi: “Það kostar” útskýrir Þorsteinn – „menn vaða ekkert í vélarnar“

Þorsteinn segist kveðja TV með vissum trega en að allt hafi sitt upphaf og endi, minningarnar séu margar og góðar sem skipti mestu. Hann vill þakka öllum liðsmönnum félagsins fyrir skemmtilegan tíma þau ár sem hann stýrði liðinu. Þorsteinn segist hlakka til að byrja í Hugin. Það félag hafi orðið fyrir valinu þar sem skipulagið sé gott, liðsandinn til fyrirmyndar og glaðværð í öndvegi. Einnig hafi skipt máli að ákveðin virðing sé borin fyrir skákmönnum sem komnir eru til vits og ára.

Þorsteinn er þekktur fyrir smíðar á kostulegum orðatiltækjum sem tengjast skákinni. Hér má m.a. nefna; „skákin er harður skóli“, „menn vaða ekkert í vélarnar“, „stigin tefla ekki“, „það kostar“, „pósaþjappa“ og síðast en ekki síst „smé“ en öll þessi orðatiltæki hafa náð ákveðinni fótfestu í tungutaki íslenskra skákmanna.

Stjórn Hugins býður Þorstein hjartanlega velkomin til félagsins og væntir mikils af atfylgi hans og skemmtilegum uppátækjum.