Úrslit Íslandsmóts skákfélaga í hraðskák sl. laugardag. Skákfélagið Huginn varði Íslandsmeistaratitil sinn með því að sigra Taflfélag Reykjavíkur í hörkuskemmtilegri viðureign með 39 vinningum gegn 33. Lokatalan segir ekki alla söguna um baráttuna því að Huginn sigraði í 6 umferðum, TR í 5 og aðeins einni umferð lauk með jafntefli.
Flesta vinninga Huginsmanna hlutu Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Stefansson, 10 vinninga af 12 mögulegum, en næstur kom Helgi Grétarsson með 6,5 af 12. Hlutskarpastir TR-inga voru Gudmundur Kjartansson og Arnar Gunnarsson með 7 vinninga af 12 hvor, en strax þar á eftir komu Jón Viktor Gunnarsson og Bjorn Thorfinnsson með 6,5 af 12.
Heildarúrslit má nálgast á Chess-Results.
Leikmönnum beggja liða er þökkuð vaskleg og drengilega framganga. Teflt var í vistlegum húsakynnum Kaffi Sólon enda við hæfi að slegið sé viðeigandi umgjörð um svo skemmtilegan menningarviðburð og verður þar vonandi framhald á.Athygli vakti að við upphaf viðureignarinnar lögðu talsmenn TR og Hugins,Kjartan Maack og Jón Þorvaldsson, báðir áherslu á þá miklu möguleika sem fælust í framtíðarsamstarfi þessara tveggja stærstu skákfélaga landsins og hvatti Kjartan viðstadda til að leggja fram hugmyndir sem vinna mætti úr. Spennandi verður að sjá hvernig til tekst um þetta samstarf en víst er að vel fer á því að starfa saman og reyna með sér í bróðerni.
Skákstjórar voru Vigfús Ó. Vigfússon og Kjartan Maack.















