Goðamenn fagna

Loksins loksins. Það tókst ! Það tókst loksins að koma A-liði Goðans upp í 3. deild eftir langa og stranga baráttu í 4. deild. A-liðið fékk 10 stig og 26,5 vinninga sem dugði í annað sætið í 4 deild á eftir KR-C, sem vann deildina með fullu húsi stiga. B-lið Goðans átti frábæran endasprett og endaði í 9. sæti með 6 stig og 21 vinning, sem gerir 3 vinningar að jafnaði í hverri umferð. Árangur B-liðsins er athyglisverður, enda sveitin mjög þétt og lítill styrkleikamunur á efsta og neðsta borði í flestum umferðunum.

Goðinn A – Dímon 3-3

Þetta var fyrir fram í okkar huga úrslita viðureign sem varð að vinnast. Þar fyrir utan þurftum við að treysta á að KR-c myndi vinna Víkingaklúbbinn – C. Það gekk eftir en við gerðum 3-3 jafntfeli við Dímon. Rúnar og Adrian unnu sínar skákir, Tómas og Smári gerðu jafntefli en Ingi Tandri og Hermann töpuðu. Gríðarlega svekkjandi og vonir okkar um að fara upp um deild líklega úr sögunni á þeim tímapunkti, þó að tölfræðilega var möguleikinn til staðar, en frekar ólíklegur.

Goðinn B – KR-f  5-1

B-sveitin vann öruggan sigur á KR-ingum enda þeirra lægsta sveit. Hún var þó betur skipuð en hún var gegn A-liðinu í 1. umferð í október. En 5-1 sigur varð niðurstaðan. Ingi Hafliði, Benedikt Þór, Kristján Ingi, Hilmar og Tryggvi unnu sínar skákir en Ævar tapaði. Ingi Hafliði Guðjónsson og Tryggvi Þórhallsson voru að tefla sínar fyrstu skákir fyrir Goðann á Íslandsmót skákfélaga.

Goðinn A – Vinaskákfélagið-b  4-2

Góður sigur vannst á B-liði Vinaskákfélagsins, enda koma ekkert annað til greina ef við ætluðum að halda í vonina um að fara upp. Önnur úrslit urðu okkur hagstæð svo að það var ennþá möguleiki fyrir lokaumferðina. Tómas, Rúnar, Hermann og Adrian unnu sínar skákir en Smári og Ingi Hafliði, sem kom upp úr B-liðinu í þessari umferð, töpuðu.

Goðinn B – KR-d  1,5-4,5

B-liðið fékk erfiðan andstæðing í 6. umferð. Kristján Ingi vann sinn andstæðing og Sighvatur gerði jafntefli. Benedikt, Hannibal, Hilmar og Björn Gunnar töpuðu sínum skákum.

Þegar pörun fyrir lokaumferðina varð ljós á laugardagskvöldið var enn möguleiki á öðru sætinu. Við þurftum að vinna KR-d og vonast eftir því að Dímon næði jafntefli eða sigri gegn Víkingaklúbbnum-C á sama tíma. Okkur fannst það tæpt ef Víkingaklúbburinn myndi geta stillt upp jafn sterku liði og þeir höfðu gert á laugardeginum.

B-lið Goðans

Goðinn A – KR-d 3,5-2,5

Þegar við mættum vongóðir til leiks á sunnudeginum kom fljótlega í ljós að Víkingaklúbburinn gat ekki stillt upp sínu sterkasta liði gegn Dímon vegna forfalla og það gaf okkur vonir. Við þurftum 3,5 vinninga gegn KR-d og það gekk eftir. Tómas, Ingi Tandri og Smári unnu sínar skákir, en Hermann og Adrian töpuðu. Eins og venjulega tefldi Rúnar lengstu skákina og dugði jafntefli til að tryggja sigurinn og sæti í 3. deild. Á sama tíma náðu Dímonar að vinna Víkingaklúbbinn og skák Rúnars mátti þess vegna tapast vegna úrslita í öðrum viðureignum. Það var því mikil gleðistund þegar þegar skákin endaði með jafntefli og 3. deildar sætið öruggt.

Goðinn B – Fjölnir c 5-1

Liðsmenn B-liðsins unnu stóran sigur á C-liði Fjölnis. Ævar, Kristján Ingi, Hannibal, Sighvatur og Aðalsteinn Leifs Maríuson unnu sínar skákir en Benedikt tapaði. Aðalsteinn var að tefla sína fyrstu kappskák og vakti athygli fyrir flott tilþrif þegar hann mátaði andstæðing sinn í aðeins 15 leikjum.

Lokastaðan í 4. deild
Rk. SNo Team Games   +   =   –  TB1  TB2  TB3
1 11 Skákdeild KR c-sveit 7 7 0 0 14 30,5 0
2 5 Skákfélagið Goðinn a-sveit 7 4 2 1 10 26,5 0
3 12 Víkingaklúbburinn c-sveit 7 4 1 2 9 24,5 0
4 6 Dímon 7 4 1 2 9 23 0
5 14 Vinaskákfélagið b-sveit 7 4 0 3 8 27 0
6 8 Skákdeild Breiðabliks d-sveit 7 3 1 3 7 23 0
7 3 Skákdeild KR e-sveit 7 3 1 3 7 21,5 0
8 16 Skákdeild KR d-sveit 7 3 0 4 6 23 0
9 1 Skákfélagið Goðinn b-sveit 7 3 0 4 6 21 0
10 10 Taflfélag Reykjavíkur f-sveit 7 3 0 4 6 20,5 0
11 2 Taflfélag Vestmannaeyja c-sveit 7 3 0 4 6 19,5 0
12 4 Skákfélag Grindavíkur 7 3 0 4 6 19 2
13 7 Skákdeild Fjölnis c-sveit 7 3 0 4 6 19 0
14 15 Skákdeild Breiðabliks e-sveit 7 3 0 4 6 18,5 0
15 9 Taflfélag Reykjavíkur g-sveit 7 3 0 4 6 14 0
16 13 Skákdeild KR f-sveit 7 0 0 7 0 5,5 0

Alls tefldu 20 skákmenn fyrir Goðann á Íslandsmótinu. 16 skákmenn í fyrri hlutanum og einnig 16 skákmenn í seinni hlutanum. Árangur hvers og eins má skoða hér fyrir neðan.

Tómas Veigar Sigurðarson tefldi allar skákirnar 7 á 1. borði og fékk 6,5 vinninga úr þeim. Þetta var afar traust frammistaða hjá Tómasi og var hann með flesta vinninga allra í 4 deildinni, en þar tefldu alls 150 keppendur. Skákirnar má skoða hér.

Tómas Veigar. Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Rúnar Ísleifsson tefldi allar skákirnar 7 á 3-4 borði á A-sveit og fékk 5,5 vinninga úr þeim. Rúnar hafði hvítt í öllum skákunum í fyrri hlutanum en svart í seinni hlutanum. Rúnar var með 11 besta vinnings hlutfallið í 4. deild. Rúnar sýndi ótrúlega þrautseigju með svörtu mönnunum og knúði fram tvo sigra í miklu tímahraki í meira en 80 leikjum.

Rúnar Ísleifsson. Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Kristján Ingi Smárason tefldi allar skákirnar 7 á 2-4 borði í B-sveit og vann fimm af þeim og þar af þrjár núna í seinni hlutanum. Kristján var með 7 besta vinnings hlutfallið í 4. deild. Kristján var með hvítt í öllum skákunum sem er ótrúleg tilviljun.

Kristján Ingi Smárason Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Adrian Benedicto Villanueva tefldi 7 skákir og vann fimm þeirra. Adrian hafði svart í sex af þeim. Gríðarlega vel gert hjá Adrian. Hann tefldi meirihlutann af skákunum með A-liðinu á 5-6 borði en hinar á 1. borði í B-sveit.

Adrian Benedicto. Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir

Sighvatur Karlsson tefldi 5 skákir á 5-6 borði í B-liðinu og krækti í 3,5 vinninga.

Sighvatur Karlsson

Hermann Aðalsteinsson tefldi allar skákirnar 7 á 4-6 borði í A-sveit og fékk 4 vinninga. Hermann, líkt og Kristján Ingi, hafði hvítt í öllum skákunum.

Hermann Aðalsteinsson

Smári Sigurðsson tefldi 7 skákir á 2-3 borði í A-liðinu og fékk 3,5 vinninga.

Smári Sigurðsson Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Ingi Tandri Traustason tefldi 4 skákir á 2. borði í A-liðinum og fékk 2 vinninga.

Ingi Tandri Traustason

Benedikt Þór Jóhannsson tefldi 6 skákir í B-liðinu og vann þrjár þeirra. Benedikt tefldi á 2-3 borði í B-liðinu

Benedikt Þór Jóhannsson

Ævar Ákason tefldi 6 skákir á 1-2 borði í B-liðinu. Ævar fékk tvo vinninga.

Ævar Ákason Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Hilmar Freyr Birgisson tefldi 6 skákir á 3-5 borði í B-liðinu og fékk 2 vinninga.

Hilmar Freyr Birgisson Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Ingi Hafliði Guðjónsson tefldi 2 skákir. Aðra þeirra á 6. borði í A-liðinu en hina á 1. borði í B-liðinu. Ingi fékk einn vinning í sinni frumraun á Íslandsmóti Skákfélaga.

Ingi Hafliði Guðjónsson

Hannibal Guðmundsson tefldi tvær skákir í B-liðinu og vann aðra þeirra. Hannibal tefldi ekkert í fyrri hlutanum.

Hannibal Guðmundsson

Tryggvi Þórhallsson tefldi eina skák á 5. borði í B-liðinu og vann hana. Þetta var fyrsta skák Tryggva með Goðanum á Íslandsmóti Skákfélaga.

Tryggvi Þórhallsson Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Aðalsteinn Leifs Maríuson tefli eina skák á 6. borði í B-liðinu og vann hana með miklum glæsibrag. Þetta var hans fyrsta reiknaða kappskák.

Aðalsteinn Leifs Maríuson

Björn Gunnar Jónsson tefldi tvær skákir á 6. borði. Björn vann aðra þeirra í fyrri hlutanum en tapaði hinni í seinni hlutanum.

Björn Gunnar Jónsson

Sigurður Daníelsson, Viðar Hákonarson, Olena Tkachuk og Alfreð Steinmar Hjaltason tefldu í fyrri hlutanum en ekki í seinni hlutanum.

Goðamenn fagna
Verðlaunaafhending. Ingi Tandri er ekki á myndinni en forseti SÍ Gunnar Björnsson tróð sér inn á myndina í hans stað

3 deildin er aðeins 8 liða deild og allir tefla við alla. Ljóst er að stutt er á milli topps og botns en markmiðið er einfallt. Það er að halda sætiu i 3.deild. Allt annað er bara bónus.

Hermann Aðalsteinsson formaður Skákfélagsins Goðans