Fjölnismenn tóku á móti hinu öfluga skákliði Bolvíkinga í 2. umferð í Hraðskákkeppni taflfélaga. Teflt var í Rimaskóla. Samtímis var efnt til hliðarmóts fyrir efnilega Fjölnismenn sem eru á leið á Norðurlandamót grunn-og barnaskólasveita í Stokkhólmi og á Västerås Open í septembermánuði.
Jafnt var með sveitum Fjölnis og TB fyrstu 5 umferðirnar
eða allt þar til Jóhann Hjartarson birtist og settist að tafli í 6. umferð. Bolarnir styrktust ekkert venjulega við komu stórmeistarans og unnu 6-0 í lokaumferð fyrri hálfleiks og náðu þægilegri forystu 21,5 – 14,5. Þrátt fyrir að Jóhann tæki aðeins fjórar skákir var hann búinn að kveikja neistann í sínu liði og síðari umferðinni lauk 24,5 – 11,5 gestunum í hag. Heildarúrslit, öruggur sigur TB 46 – 26.
Fyrir liði Bolvíkinga fóru tveir ósigrandi turnar, þeir Bragi Þorfinnsson og Dagur Arngrímsson. Bragi var með fullt hús og 12 vinninga og Dagur með 11,5 vinninga. Magnús Örn halaði inn 7,5 vinningi og Halldór Grétar 6,5. Eins og áður sagði staldraði Jóhann Hjartarson við í stutta stund, tók fjórar skákir og vann þær allar. Aðrir sem tefldu fyrir Bolvíkinga voru þeir Guðmundur Daðason og Sæbjörn Guðfinnsson.
Fjölnismenn börðust vel allan tímann og gerðu hvað þeir gátu að halda í við Bolvíkinga og gátu verið nokkuð sáttir við sína frammistöðu. Þeir söknuðu stórmeistara síns Héðins Steingrímssonar frá 1. umferð keppninnar og enginn vafi leikur á því að með Héðin í liðinu hefði rimman orðið jöfn. Tómas Björnsson sem fellur ljómandi vel inn í hóp hinna efnilegu skákmanna Fjölnis hlaut 7 vinninga úr 11 skákum og hinn 17 ára Dagur Ragnarsson átti góða setu, tefldi allar skákirnar og hlaut 6 vinninga. Oliver Aron var með 4,5 vinning, Jón Trausti og Erlingur Þorsteins með 3 vinninga en auk þeirra tefldu þeir Jón Árni, Dagur Andri og Hörður Aron Hauksson fyrir Fjölnismenn í þessari umferð.

