IMG_1998Barna- og unglingaæfingar Hugins í Mjóddinni hefjast aftur eftir sumarfrí mánudaginn 1. september 2014. Taflið byrjar kl. 17:15 og fyrirkomulagið verður það sama og síðasta vetur.  Æfingarnar eru opnar öllum 15 ára og yngri en skipt verður í tvo flokka eftir aldri og styrkleika á sumum æfingum. Engin þátttökugjöld.

Æfingarnar verða haldnar í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a, Mjódd. Inngangur er við hliðina á Subway en salur félagsins er á þriðju hæð hússins. Á æfingunum verða 5 eða 6 umferðir með umhugsunartíma 10 eða 7 mínútur. Einnig verður farið í dæmi og endatöfl eins og tíma vinnst til. Þegar starfsemin verður komin vel af stað verður unnið í litlum verkefnahópum á einni æfingu í mánuði og þannig stuðlað að því að efla einingu og samstöðu innan hópsins.  Þær æfingar verða eingöngu fyrir félagsmenn og verða kynntar síðar. Jafnframt verða í boði nokkrar æfingar utan æfingatíma fyrir félagsmenn þar sem farið verður í dæmi, verkefni og fleira. Umsjón með þessum æfingunum hafa Erla Hlín Hjálmarsdóttir og Vigfús Ó. Vigfússon. Stúlknaæfingar í Mjóddinni hefjast síðar og verða kynntar þegar þar að kemur.

Þeim sem sækja æfingarnar stendur einnig til boða skákþjálfun  í Stúkunni við Kópavogsvöll þriðjudaga til föstudaga frá 16:00 – 17:30.

Aðalþjálfari í Stúkunni verður Birkir Karl Sigurðsson.  Honum til aðstoðar verður einvala lið þjálfara frá Skákskóla Íslands, Skákfélaginu Huginn og Skákdeild Breiðabliks.

Í þjálfuninni verður stuðst við námsefni frá Chess Steps, stig 3 til 6.