Síðasta barna- og unglingaæfing Hugins fyrir sumarhlé var haldin 2. júní sl. Nokkur spenna var fyrir æfinguna hvort Óskar Víkingur myndi tryggja sér sigurinn í stigakeppni æfinganna en til þess þurfti hann að ná verðlaunasæti á æfingunni. Helsti keppinautur hans Heimir Páll var fjarverandi vegna skákferðar erlendis. Þeir voru jafnir að stigum og höfðu einnig unnið æfingarnar átta sinnum í vetur.
Í fyrstu umferðunum var tefld þemaskák úr slavanum á efstu fjórum borðunum. Það breytir nokkuð yfirbragði æfingarinnar þannig að þeir sem hafa eitthvað undirbúið sig og skoðað þær stöðumyndir sem þeir fengu sendar stóðu betur að vígi. Dawid Kolka tók forystuna strax í upphafi og lét hana aldrei af hendi og sigraði með fullu hús 5v í jafn mörgum skákum. Annar var Alec Elías Sigurðarson með 4v og 13 stig en Alec hefur komið sterkur inn í lokahluta æfinganna og oft náð verðlaunasæti eftir rólegt gengi um miðjan vetur. Þriðji var Sindri Snær Kristófersson með 4v og 10 stig en Sindri Snær átti gott tímabil síðasta vetur og tókst m.a. að vinni eldri flokkinn á æfingunum tvisvar.
Þessi úrslit á lokaæfingunni þýða það að Heimir Páll Ragnarsson og Óskar Víkingur Davíðsson deila efsta sætinu í stigakeppni vetrarins með 38 stig og átta sigra. Þetta er í fyrsta sinn sem tveir deila efsta sætinu í þessari stigakeppni æfinganna. Yfirleitt hafa úrslitin verið nokkuð afgerandi og oft ráðin nokkru fyrir lokaæfinguna. Þriðji varð Dawid Kolka með 32 stig og níu sigra á æfingunum um veturinn. Þessir þrír voru nokkuð örugglega í efstu sætum. Heimir Páll og Óskar Víkingur hafa ekki áður náð í verðlaunasæti í stigakeppninni en Dawid er á kunnuglegum slóðum og vann þessa keppni næstu tvö tímabil á undan.
Í æfingunni tóku þátt: Dawid Kolka, Alec Elías Sigurðarson, Sindri Snær Kristófersson, Stefán Orri Davíðsson, Birgir Ívarsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Felix Steinþórsson, Jón Hreiðar Rúnarsson, Brynjar Haraldsson, Birgir Logi Steinþórsson, Aron Kristinn Jónsson, Sævar Breki Snorrason.
Mánudagsæfingar sem eru opnar börnum og unglingum á grunnskólaldri voru uppstaðan í barna og unglingastarfinu í vetur. Umsjón með þeim æfingum höfðu Erla Hlín Hjálmarsdóttir og Vigfús Ó. Vigfússon. Eftir áramótin var félagið einnig með stelpuæfingar á miðvikudögum sem einnig voru vel sóttar. Umsjón með stelpuæfingunum höfðu Elsa María Kristínardóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir. Þessu til viðbótar var boðið upp á nokkrar aukaæfingar fyrir félagsmenn á laugardögum. Æfingarnar í vetur voru vel sóttar en yfir 100 börn og unglingar sóttu þær. Kjarninn sem sótti æfingarnar mætti afar vel og fengu 18 viðurkenningu fyrir mætinguna í vetur en það voru: Halldór Atli Kristjánsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Alec Elías Sigurðarson, Brynjar Haraldsson, Adam Omarsson, Stefán Orri Davíðsson, Birgir Ívarsson, Heimir Páll Ragnarsson, Oddur Þór Unnsteinsson, Sindri Snær Kristófersson, Egill Úlfarsson, Ívar Andri Hannesson, Róbert Luu, Óttar Örn Bergmann, Sævar Breki Snorrason, Aron Kristinn Jónsson, Baltasar Máni Wetholm og Birgir Logi Steinþórsson
Nú verður gert hlé á Huginsæfingunum í Mjóddinni þangað til í haust þegar þær byrja aftur um mánaðarmótin ágúst – september.