28.8.2012 kl. 10:06
Dregið í undanúrslit í Hraðskákkeppni taflfélaga
Tvær síðari viðureignirnar í 8 liða úrslitum Hraðskákkeppni taflfélaga 2012 fóru fram í gær. Garðbæingar lögðu Bridsara 42-30 og Goðar unnu Akureyringa 47-25.
Þegar úrslit lágu fyrir í viðureignum kvöldsins var dregið 4-liða úrslit. keppninnar. Eftirvæntingin leyndi sér ekki meðal viðstaddra enda er Hraðskákkeppni taflfélaga sérlega spennandi viðburður í íslensku skáklífi. Niðurstaðan varð þessi:
Taflfélag Garðarbæjar – Goðinn
Hellir – Víkingaklúbburinn
Óvenju fagmannlegur blær var yfir drættinum enda brá héraðsdómslögmaðurinn Halldór Brynjar Halldórsson sér í gervi fulltrúa sýslumanns við góðar undirtektir viðstaddra. Hann dró liðin úr hattinum einbeittur á svip í viðurvist annars lagaspekings, Helga Áss Grétarssonar, sem vottaði að drátturinn hefði farið heiðarlega en þó umfram allt siðsamlega fram.
Víst er að hart verður barist í undanúrslitunum en stefnt er að því að úrslitin sjálf fari svo fram með pompi og prakt á skákhátíð í Laugarsalshöll 15. sept. nk.
