Skákfélagið Huginn vann sigur á Ungverska liðinu Haladas á EM taflfélaga sem nú er í gangi í Bilbaó 3,5-2,5. Einar Hjalti Jensson vann enn – sína fimmtu skák í röð! Með þessum árangri hefur Einar þegar tryggt sér áfanga að alþjóðlegum meistaratitli – jafnvel þó hann tapi í tveimur síðustu umferðunum. Auk Einars Hjalta vann Robin Van Kampen sína skák, Gawain Jones, Hlíðar Þór Hreinsson og Magnús Teitsson gerðu jafntefli en Þröstur Þórhallsson tapaði. Frábær úrslit gegn sterkri sveit sem var raðað nr. 13 í styrkleikaröðinni á meðan Huginn var raðað nr. 21 fyrir mót.
Evrópumeistararnir á morgun.
Huginn mætir tékknesku Evrópumeisturunum G-Team Novy Bor í sjöttu og næstsíðustu umferð EM taflfélaga sem fram fer á morgun. Það lið er það fimmta sterkasta og hefur meðalstigin 2696 skákstig. Einar Hjalti Jensson (2349), sem þegar hefur tryggt sér áfanga að alþjóðlegum meistara, með frábærri frammistöðu, mætir væntanlega tékkneska stórmeistaranum Viktor Laznicka (2675).
Ef einhver veit í hvaða sæti Huginn er má sá hinn sami láta vita af því. Heimasíða mótsins er algjörlega handónýt og erfitt að finna upplýsingar um stöðu og úrslit.
- Heimasíða mótsins – (sem hefur brugðist algjörlega)
- Chess24 (mjög góðar beinar útsendingar)
- Úrslitaþjónusta
- Beinar útsendingar