Goðinn-Mátar hraðskákmeistari taflfélaga eftir gríðarlega spennandi úrslitaviðureign

Það var gríðarlega spenna fyrir úrslitaviðureign Hraðskákkeppni taflfélaga sem fram fór í húsnæði Skákskóla Íslands í dag. Um var að ræða endurtekið efni en Goðinn-Mátar og Víkingaklúbburinn mættust í úrslitum rétt eins og fyrra. Þá þurfti að grípa til bráðabana eftir að sveitirnar urðu jafnar 36-36. Þá hafði Víkingaklúbburinn betur í bráðabana 3,5-2,5. 

1238169 469554133152326 168498505 n
 

Íslandsmeistarar í hraðskák taflfélaga 2013 Goðinn-Mátar.  Sigurður Daði. Þröstur Árna, Kristján Eðvaðrs, Þröstur Þórhalls, Jón þorvalds, Helgi Áss og Tómas Björnss. Einar Hjalti, Arnar Þorsteins, Magnús Teits og Ásgeir Ásbjörns.  

Ljóst var fyrirfram að sveitirnar væru gríðarlega jafnar og flestir spáðu jafnri viðureign og jafnvel að aftur kæmi til bráðbana. Í sveit Víkingaklúbbsins vantaði Magnús Örn Úlfarsson en í sveit Goðans-Máta vantaði Hlíðar Þór Hreinsson. GoðMátar máttu hins vegar betur við forföllum enda með töluvert meiri breidd en Víkingarnir.

Í upphafi einvígisins var sunginn afmælissöngurinn til heiðurs Gunnar Frey Rúnarssyni liðsstjóra Víkingaklúbbsins sem á afmæli í dag.

GoðMátar byrjuðu með látum, vann fyrstu umferðina 5-1. Víkingar komu hins vegar sterkir til baka og með sigrum með annarri og þriðju umferð voru þeir skyndilega komnir yfir. Víkingar leiddu svo 19-17 í hálfleik.

GoðMátar byrjuðu svo seinni hlutann með látum þegar þeir unnu fyrstu viðureignina eftir hálfleik (7. umferð) 4,5-1,5 og höfðu þar með endurheimt forystuna. Þeir héldu forystunni fram til 10. umferðar þegar Víkingar jöfnuðu metin. Staðan orðin 30-30. Goð-Mátar unnu svo elleftu umferðina 4-2 og leiddu 34-32. Tekið var 5 mínútna hlé og GoðMátar byrjuðu lokaumferðina vel, voru komnir með aðra höndina á titilinn 36-33 en Víkingar unnu þrjár síðustu skákirnar og jöfnuðu metin 36-36!

1185622 469554089818997 425575124 n
 

Helgi Áss Grétarsson tekur við bikarnum úr höndum Gunnars Björnssonar forzeta skáksambands Íslands. Mynd: Hrafn Jökulsson. 

Og þá var komið að bráðabana. Þetta var í þriðja skipti í sögu keppninnar sem það gerist. Það gerðist fyrst fyrsta keppnisár keppninnar1995 þegar Taflfélag Garðabæjar vann Skákfélag Hafnarfjarðar í átta liðum úrslitum eftir bráðabana. Næst gerðist það í fyrra hjá Víkingum og Goðmátum!

Spennan var nánast óbærileg fyrir bráðabanann. GoðMátar byrjuðu vel og í stöðunni 3-2 þráskákaði Þröstur Þórhallssyni á móti Stefáni Kristjánssyni og þar með ljóst að sigurinn væri Þingeyinga.

Þeir voru vel að þessu komnir. Fengu erfiða andstæðinga í öllu umferðum þ.e. TR, Helli og Bolvíkinga fram að úrslitunum. Jón Þorvaldsson, liðsstjóri þeirra er ákaflega klókur sem slíkur og er með öll sálfræðitrikkin á hreinu.

Skor GoðMáta var tiltölulega jafnt. Einar Hjalti Jensson hlaut 7,5 vinning, Ásgeir P. Ásbjörnsson, Þröstur Þórhallsson og Sigurður Daði Sigfússon fengu 7 vinninga. Daði reyndist ákaflega dýrmætur “varamaður” en hann kom inn í liðið í fjórðu umferð og var því með 70% skor.

Hannes Hlífar Stefánsson bar höfuð og herðar yfir félaga sína í Víkingaklúbbnum og hlaut 11 vinninga í 13 skákum. Ótrúlega gott skor í svo sterkri keppni. Davíð Kjartansson hlaut 8,5 vinning en Stefán Kristjánsson og Björn Þorfinnsson 8 vinninga. Það sem reyndist Víkingum í raun og veru að falli að enginn vinningur kom í hús á sjötta borði. Afmælisbarnið Gunnar Freyr, formaður og liðsstjóri Víkinga, gerði sér lítið fyrir og vann Helga Áss 2-0.

Einstaklingsskor má nálgast hér. Þar vantar reyndar úrslit bráðabanans en þar urðu úrslit sem hér segir:

  • Helgi Áss Grétarsson – Hannes Hlífar Stefánsson 0-1
  • Þröstur Þórhallsson – Stefán Kristjánsson 0,5-0,5
  • Ásgeir P. Ásbjörnsson – Björn Þorfinnsson 0-1
  • Einar Hjalti Jensson – Davíð Kjartansson 1-0
  • Sigurður Daði Sigfússon – Gunnar Freyr Rúnarsson 1-0
  • Kristján Eðvarðsson – Stefán Þór Sigurjónsson 1-0

Myndir frá keppninni væntanlegar. Fjöldi áhorfenda var viðstaddur keppnina og stemming á skákstað mjög mikil.

Það var Taflfélagið Hellir sem stóð fyrir keppninni sem nú fór fram í 19. sinn. Skákstjórar voru Rúnar Berg og Gunnar Björnsson.