Huginn fékk tvo Íslandsmeistara á Íslandsmóti ungmenna sem fram fór um síðustu helgi í Rimaskóla. Að auki kom eitt silfur og tvö brons í hús hjá Huginn. Óskar Víkingur Davíðsson (11-12 ára) og Stefán Orri Davíðsson (9-10 ára) urðu Íslandsmeistarar í sínum flokkum. Teflt var um tíu Íslandsmeistaratitla og 96 skákmenn tóku þátt.
Flokkur 15-16 ára
Í elsta flokknum kom eitt brons í hús þegar Dawid Kolka varð í þriðja sæti með þrjá vinninga. Bárður Örn Birkisson úr TR varð Íslandsmeistari í flokki 15-16 ára en hann hlaut 4,5 vinning í 5 skákum. Annar varð tvíburabróðir hans Björn Hólm einnig í TR en hann hlaut 3 vinninga eins og Dawid Kolka en hærri á stigum. Þeir þrír eru allir nemendur í Kvennaskólanum og því ljóst að sá skóli mun hafa á að skipa sterki skáksveit næstu þrjú árin.
Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.
Flokkur 13-14 ára
Í þessum flokki var Elín Edda Jóhannsdóttir önnur í stúlknaflokki. Íslandsmeistari stúlkna í flokknum var Nansý Davíðsdóttir úr Fjölni..
Flokkur 11-12 ára
Óskar Víkingur Davíðsson var í miklum ham í flokki 11 og 12 ára og vann öruggan sigur. Vann alla níu andstæðinga sína og var búinn að tryggja sér sigur fyrir síðustu umferð! Róbert Luu úr TR varð annar með 7 vinninga og Ísak Orri Karlsson úr Breiðablik þriðji einnig með 7 vinninga en lægri á stigum.
Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.
Flokkur 9-10 ára og yngri

Þessi flokkur var sá mest spennandi af þeim öllum og aukakeppni þurfti að útkljá Íslandsmeistaratitilinn. Óttar Örn Bergmann Sigfússon var í forystu eftir fyrri daginn og vann þá m.a. stigahæsta keppandann í flokknum Stefán Orra Davíðsson, sennilega í fyrsta skipti en þeir hafa nokkuð margar skákir teflt á skákæfingum hjá Huginn. Óttar Örn hélt svo forystunni fram í sjöundu umferð þegar eina tapið kom gegn Gunnari Erik Guðmundssyni en jafnteflin voru tvö að auki.
Þegar upp var staðið komu Stefán Orri Davíðsson og Gunnar Erik Guðmundsson Breiðablik efstir og jafnir í mark með 8 vinninga í 9 umferðum. Þeir þurftu því að há úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn og þar hafði Stefán Orri betur, 2-0. Þess má geta að Stefán Orri er bróðir Óskars Víkings svo þeir bræður komu heim með tvo Íslandsmeistaratitla. Óttar Örn Bergmann Sigfússon varð þriðji með 7 vinninga en frammistaða hans var með þeim óvæntari á mótinu. Adam Omarsson var í 5.-8. sæti með 5v en Adam var á yngra árinu í flokknum og mætir sterkur til leiks að ári.
Stöðuna má finna á Chess-Results.


Strax að loknu einvíginu við Gunnar Erik tefldi Stefán Orri við Batel Goitom Haile, sem sigraði í stúlkaflokki sama aldursflokks, til úrslita um keppnisrétt á NM ungmenna sem fram fer í Noregi í febrúar nk. Þar hafði Stefán Orri einnig 2-0 sigur. Stefán Orri tefldi því samtals 13 skákir á mótinu um síðustu helgi og vann þær allar nema skákina við Óttar Örn.
Flokkur 8 ára og yngri

Kristján Ingi Smárason varð í 4.-10. sæti með 4v og efstur þeirra að stigum. Tap í fyrstu umferð olli því að Kristján Ingi átti eftir að fá tvo sterkust keppendurna í flokknum þegar kom að lokaumferðunum og þeir biðu hans í tveimur síðustu umferðunum. Jósef Omarsson var í 11 sæti með 3,5v en Jósef er fæddur 2011 svo framtíðin er hans ef rétt er haldið á spöðunum.
Jökull Bjarki sigraði á mótinu en hann hlaut fullt hús í sjö skákum. Tómas Möller (Breiðablik) varð annar með 6 vinninga og Einar Dagur Brynjarsson (Víkingaklúbburinn) þriðji með 5 vinninga.
Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.



