29.6.2011 kl. 20:18
Hlíðar Þór Hreinsson er genginn í Goðann.
Hlíðar Þór Hreinsson (2180) Ísl (2253 FIDE) hefur tilkynnt félagaskipti úr Haukum í Goðann.
Hlíðar Þór Hreinsson (tv) teflir við Þröst Þórhallsson stórmeistara. Mynd: skák.is
Með komu Hlíðars Þórs Hreinssonar til félagsins, styrkist Goðinn mikið, enda er Hlíðar Þór öflugur skákmaður.
Hlíðar Þór hóf ferilinn í Taflfélagi Reykjavíkur 7 ára gamall og tefldi með
unglingasveitum TR en fór í Taflfélag Kópavogs eftir nokkur ár og var
þar allt til að félagið lagðist í dvala. Hlíðar hefur síðustu ár teflt með
Skákdeild Hauka í fyrstu og annarri deild. Hann á að baki talsverðan
félagsmálaferil, var skákkennari í 8 ár meðfram námi og var
stjórnarmaður í Skáksambandi Íslands og Taflfélagi Kópavogs um árabil. Hlíðar er formaður Skákstyrktarsjóðs Kópavogs sem styrkir barna og
unglingastarf í Kópavogi.
Hlíðar tefli frekar lítið fyrir utan deildakeppnina,
en síðasta mót sem hann tók þátt í var Boðsmót Hauka 2009 og varð hann þar í
1-3. sæti ásamt Hjörvari Steini Grétarssyni og Lenku Ptacnikovu. Besti
árangur Hlíðars í deildakeppninni var 6,5 af 7 vinningum 2008-2009 þegar b lið
Hauka vann sig upp í fyrstu deild.
Stjórn skákfélagsins Goðans býður Hlíðar Þór Hreinsson velkominn í Goðann.