Skákfélagið Huginn og Taflfélag Bolungarvíkur mætast í úrslitum Hraðskákkeppni taflfélaga. Það er ljóst eftir undanúrslit keppninnar sem fram fóru í húsnæði Skákskóla Íslands sl. laugardag. A-sveit Hugins vann Skákfélag Akureyrar nokkuð örugglega að velli 44-28 en Bolvíkingar unnu b-sveit 40-32 þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokaumferðinni.
Huginn-a – SA
Viðureignin félaganna náði aldrei að vera spennandi. Huginsmenn náðu snemma forystunni og leiddi í hálfleik 24-12. Betur gekk hjá Akureyringum þegar leið á viðureignina og unnu þeir t.d. 10. og 11. umferð.
Helgi Ólafsson og Hjörvar Steinn Grétarsson fóru báðir mjög mikinn og hlutu 11 vinninga í 12 skákum! Helgi Áss Grétarsson hlaut 5 vinning í 6 skákum.
Jón Kristinn Þorgeirsson fór fyrir Norðanmönnum og hlaut 7½ vinning. Gerði tvívegis jafntefli við Helga Ólafsson og vann Hjörvar Stein Grétarsson í annarri skák þeirra. Arnar Þorsteinsson hlaut 4½ í 7 skákum.
TB – Huginn-b
Öllu meiri spenna var í viðureign Bolvíkinga og Hugins-b. Bolvíkingar höfðu þó forystu frá upphafi en góð úrslit Hugins-manna í næstsíðustu umferð hleyptu miklu spennu í keppnina en munurinn var eðins 3 vinningar. Stór sigur Bolvíkingana 5-1 í lokaumferðinni tryggði þeim góðan 40-32 sigur.
Jóhann Hjartarson var bestur Bolvíkinga en hann hlaut 10½ í 12 skákum. Næstir komu Dagur Arngrímsson með 8 vinninga og Guðmundur Gíslason með 7½ vinning.
Þorsteinn Þorsteinsson og Andri Áss Grétarsson voru bestir í tiltölulega jöfnu liði b-sveitar Hugins en þeir hlutu 6½ vinning í 12 skákum.
Úrslit
Úrslitaviðureign Bolvíkinga og Hugins fer fram nk. laugardag í Skákskólanum og hefst kl. 14. Búast við jafnri og spennandi viðureign. Gera má ráð fyrir að allt sjö íslenskir stórmeistarar tefli og þar af 3 af hinni svokölluðu “fjórmenningarklíku”. Áhorfendur velkomnir!