Hraðskákkeppni taflfélaga fór fram í Rimaskóla á þriðja síðasta degi ársins 2018. Það var Skákdeild Fjölnis sem stóð fyrir mótinu annað árið í röð og var teflt í góðu yfirlæti í Rimaskóla. 11 sveitir tóku þátt í mótinu sem var nokkuð undir væntingum og mun Fjölnir finna mótinu betri tíma á næsta ári til að örva þátttökuna.
En þá að mótinu sjálfu, fyrirfram mátti búast við því að Huginn a sveit, TR og Víkingaklúbburinn myndu berjast um sigurinn og eins voru a sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjanesbæjar (BBR) og a sveit Fjölnis líklegar til að berjast um verðlaun á mótinu.
Mótið fór vel af stað og til að byrja með var sveit BBR í forystu enda með nokkra grjótharða hraðskákmenn innan sinna raða. Gekk þeim sérlega vel á neðri þremur borðunum þar sem þeir Guðmundur Halldórsson (10,5/14), Hlíðar Þór (11,5/14) Halldór Grétar (10/14) fóru mikinn á meðan þeir Guðmundur Gíslason, Magnús Pálmi og Örn Leó Jóhannsson héldu sínu á efstu þremur borðunum. Eins var efsta sveit Íslandsmóts Skákfélaga, Skákdeild Fjölnis nokkuð spræk og með 12-0 sigri gegn Skákgenginu í 5. umferð komst sveitin í tæri við toppinn. En 7-5 tap gegn BBR í 6. umferð gerði þó fljótt út um vonir Fjölnis á frekari afrekum og fór svo að sveitin endaði í þriðja sæti mótsins.
Huginn a sveit fór rólega af stað og vann frekar nauma sigra á Víkingaklúbbnum (6,5-5,5) og Fjölni (6,5-5,5) í annarri og þriðju umferð. Þeim óx þó ásmegin í framhaldinu og unnu góða sigra gegn BBR a sveit (8,5-3,5) og SA (8,5-3,5) í næstu umferðum og komust þar með í efsta sætið og létu það ekki af hendi eftir það. Fór svo að lokum að Huginn a sveit vann öruggan sigur með 59,5 vinninga í 84 skákum. Í næstu sætum komu BBR a sveit með 54 vinninga og Fjölnir a sveit með 53 vinninga.
Sigursveit Hugins skipuðu:
Helgi Ólafsson 4 v. af 4
Hannes Hlífar Stefánsson 8½ af 10
Helgi Áss Grétarsson 12½ v. af 14
Magnús Örn Úlfarsson 11 v. af 14
Andri Áss Grétarsson 8 v. 14
Baldur A. Kristinsson 5½ v. af 14
Atli Freyr Kristjánsson 10 v. af 14
B-sveit Hugins sigraði keppni b-liða.
B-sveit Hugins skipuðu:
- Lenka Ptacknicova
- Kristján Eðvarðsson
- Gunnar Björnsson
- Bragi Halldórsson
- Sæberg Sigurðsson
- Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir
- Vigfús Ó. Vigfússon
Lokastaðan á Chess-Results.