26.6.2012 kl. 10:36
Íslandsmeistarinn vígður inn í Goðann.
Liðsmenn Goðans og velunnarar á höfuðborgarsvæðinu áttu saman skemmtilega stund sl. miðvikudagskvöld. Nýjasti liðsmaður Goðans, Íslandsmeistarinn Þröstur Þórhallsson, var tekinn formlega inn í félagið með viðeigandi ávarpi og lófataki. Að vígslu lokinni flutti Þröstur áhugavert erindi um einvígi sitt við Braga Þorfinnsson, þar sem hann rakti skákirnar með skýringum, reifaði atburðarásina „bak við tjöldin“ og henti á lofti skarplegar ábendingar félaga sinna.
Einar Hjalti Jensson, fræðameistari Goðans, afhendir Þresti Þórhallssyni keppnistreyju félagsins. Gullregnið í bakgrunni er vel við hæfi enda aðstoðaði Einar Hjalti Þröst í einvíginu um Íslandsmeistartitilinn.
Í veitingahléi var farið yfir stöðu mála fyrir átökin í 1. deild á komandi leiktíð. Það leyndi sér ekki að mikill hugur er í köppum Goðans sem munu verja nýfengið sæti sitt meðal bestu skáksveita landsins af harðfylgi.