Helgi Áss Grétarsson orðinn Goði !

 

Skammt er stórra högg milli hjá Goðanum því að í dag gekk Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari og fyrrum heimsmeistari ungmenna, til liðs við Goðann. Helgi Áss er annar íslenski stórmeistarinn sem gengur Goðanum á hönd og hittir þar fyrir félaga sinn, Þröst Þórhallsson, sem nýgenginn er í félagið.

 

image001

Ljóst er að Goðanum er gríðarlegur liðsauki að Helga og munar um minna þegar hin knáa A-sveit Goðans þreytir frumraun sína í 1. deild Íslandsmótsins í haust í baráttu við firnasterka keppinauta. Hermann Aðalsteinsson, formaður Goðans:  „Þetta eru mikil gleðitíðindi. Við Goðar erum sannarlega stoltir af því að þessi  öflugi og fjölhæfi skákmaður laðist að þeirri skákmenningu og umgjörð sem við höfum upp á að bjóða. Við hlökkum til að njóta atfylgis Helga og gerumst nú enn upplitsdjarfari þegar horft er til komandi leiktíðar. Með inngöngu Helga Áss og Þrastar í félagið er sterkum stoðum rennt undir framtíð Goðans meðal fremstu skákfélaga á landinu.“  

 

Skákferill Helga Áss er glæsilegur. Árið 1994, þegar Helgi var sautján vetra, varð hann heimsmeistari ungmenna 20 ára og yngri í skák og hlaut um leið nafnbótina stórmeistari. Helgi hefur náð prýðis árangri á alþjóðlegum mótum, deildi t.d. efsta sætinu á Politiken Cup í Kaupmannahöfn árið 1997 og var á meðal efstu manna á Reykjavíkurskákmótunum 1994 og 2002. Hann hafnaði fjórum sinnum í öðru sæti í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands, síðast árið 2004, og varð skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur tvö ár í röð, 1991 og 1992. Helgi varð tvívegis Íslandsmeistari í atskák og hefur einnig tvívegis orðið hraðskákmeistari Íslands, síðast árið 2006. Þá náði hann tvisvar sinnum 2. sæti á heimsmeistaramótum barna- og unglinga, u-14 árið 1991 og u-16 árið 1993. Helgi varð þrefaldur Norðurlandameistari í einstaklingskeppni í skólaskák, síðast árið 1992, og er margfaldur Íslandsmeistari barna- og unglinga frá árunum 1988-1993. Loks má geta þess að Helgi hefur fjórum sinnum teflt fyrir hönd þjóðar sinnar Ólympíumótinu í skák.

  
Helgi Áss Grétarsson: “Sú blanda af samheldni,  glaðværð og fræðimennsku sem einkennir félagið veldur miklu um ákvörðun mína að ganga því á hönd. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í þessum öfluga hópi.“

 

Stjórn og liðsmenn Goðans bjóða Helga Áss Grétarsson velkominn í sínar raðir.