28.9.2009 kl. 21:16
Íslandsmót skákfélaga. Pistill formanns.
Þá er fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga lokið og óhætt að segja að góður árangur hafi náðst hjá A-sveit Goðans. Liðið er sem stendur í 2 sæti í 4. deild, með 17 vinninga eftir 4 umferðir og aðeins hálfum vinningi á eftir efsta liðinu, A-liði Víkingasveitarinnar, sem verða andstæðingar A-sveitarinnar í 5. umferð í mars.
A-sveitin vann allar sínar viðureignir. Þar á meðal var sterkt lið TV-B sem búið var að spá sigri í 4. deildinni í vetur.
B-liðið er í 21 sæti í 4. deild, með 11 vinninga og er það svona á því róli sem við mátti búast. B-sveitin var ekki eins sterk eins og til stóð, því Rúnar forfallaðist óvænt og tefldi ekkert með okkur og Einar Garðar tefldi bara tvær skákir.
Árangur A-sveitarinnar.
TV – C – Goðinn A 2 – 4
Góður sigur vannst á C- sveit Eyjamanna. Erlingur, Sigurður Jón og Pétur unnu sínar skákir. Barði og Smári gerðu jafntefli, en Jakob tapaði. Fín byrjun sem gaf tóninn.
Goðinn-A – Snæfellsbær. 4 – 2
Annar góður sigur vannst á Snæfellingum. Sigurður Jón og Barði unnu sínar skákir, en aðrar skákir enduðu með jafntefli. Nú var Sindri kominn inní liðið en Pétur kominn niður í B-sveitina.
TV – B – Goðinn A 2,5 – 3,5
Glæsilegur sigur á B-sveit Eyjamanna, þeirri sömu og “aðalritari” skák.is og forseti vor Gunnar Björnsson hafði spáð sigri í 4. deildinni. Sindri og Jakob unnu sínar skákir. Erlingur, Barði og Sigurður Jón gerðu jafntefli en Smári tapaði sinni skák.
Goðinn – A – KR – E 5,5 – 0,5
Stórsigur á E-sveit KR fleytti A-sveitinni í annað sætið þegar þrjár umferðir eru eftir. Erlingur, Sindri, Jakob, Barði og Smári unnu sína andstæðinga og Sigurður Jón gerði jafntefli.
Óhætt er að segja að A-liðið hafa alla burði til þess að krækja í sæti í 3. deild að ári. Einungis tvær skákir af 24 töpuðust í fyrri hlutanum. Allir okkar bestu menn eru í liðinu og ef engin forföll verða í seinni hlutanum lítur þetta vel út. Við bíðum spenntir eftir viðureign okkar við Víkingasveitina í 5. umferð. Úrslitin úr þeirri viðureign koma til með að ráða miklu um framhaldið.
Árangur B-sveitarinnar.
Goðinn – B – SSON 0,5 – 5,5
Slæm byrjun hjá B-sveitinni. Hálfgerð flenging í boði Skákfélags Selfoss og nágrennis. Einar Garðar gerði jafntefli á fyrsta borði en Ævar, Sighvatur, Sigurbjörn, Brandur og Einar Már töpuðu sínum skákum. Hermann sat yfir en var einn af skákstjórunum í 1. umferð.
Haukar/TG – Goðinn – B 0 – 6
Eins og búast mátti við fengum við krakkasveit í annari umferð. Ekki var hún nein fyrirstaða fyrir B-sveitina. allar skákir unnust á sameiginlegu krakkaliði Hauka og Taflfélags Garðabæjar. Nú var Pétur kominn á fyrsta borð og Einar Garðar á annað borð. Sigurbjörn sat hjá í 2. umferð.
UMSB – Goðinn – B 5,5 – 0,5
Fastir liðir eins og venjulega. Alltaf teflum við gegn Borgfirðinga í deildarkeppninni. En nú náðu Borgfirðingar fram hefndum. Nú steinlágum við fyrir þeim. Aðeins Brandur náði janftefli, en aðrar skákir töpuðust. Bjarni Sæmundsson og John Ontiveros eru gegnir til liðs við UMSB og það var of stór biti fyrir B-sveitina.
Goðinn – B – UMFL 4 – 2
Auðveldur sigur vannst á Laugvetningum. Hermann, Sigurbjörn og Brandur unnu auðvelda sigra eftir aðeins 30 mínútur því engir andstæðingar voru til staðar ! Pétur vann einnig sinn andstæðing en Ævar og Sighvatur töpuðu.
Árangur einstakra skákmanna Goðans.
Erlingur þorsteinsson 3 vinn af 4
Tveir sigrar og tvö jafntefli hjá Erlingi á 1. borði í A-sveitinni. Góð frammistaða hjá stigahæsta skákmanni félagsins.
Sigurður Jón Gunnarsson 3 vinn af 4
Frábær endurkoma að skákborðinu hjá Sigurði Jóni. Sigurður hafði ekki teflt kappskák í 20 ár. Það var ekki að sjá að svo væri. Hann tapaði ekki skák. Sigurður tefldi á 3. borði í A-sveitinni, en tefldi eina skák 2. borði í fyrstu umferð, í fjarveru Sindra.
Barði Einarsson 3 vinn af 4
Barði undirstrikaði hve öruggur hann er. Tveir sigrar og tvö jafntefli. Barði tefldi á 5. borði, en á 4. borði í fyrstu umferð, í fjarveru Sindra.
Pétur Gíslason 3 vinn af 4
Pétur vann þrjár skákir en tapaði einni. Hann tefldi á 1. borði í B-sveit, nema í fyrstu umferð, en þá var Pétur á 6. borði í A-sveitinni.
Sindri Guðjónsson 2,5 af 3
Sindri vann tvær skákir og gerði eitt jafntefli. Afar góð frammistaða eins og búast mátti við hjá Sindra. Sindri tefldi á öðru borði í A-sveitinni í 2-4 umferð. Sindri kom svo seint til Reykjavíkur á föstudeginum að hann gat ekki teflt með okkur þá, enda um langan veg að fara fyrir hann, alla leið frá Bakkafirði. Sindri er ásamt Barða, Sigurði Jóni, Erlingi og Einari Garðari, taplausir eftir fyrri hlutann.
Jakob Sævar Sigurðsson 2,5 af 4
Jakob Sævar stóð fyrir sínu á 5. borði. Hann vann tvær skákir, gerði eitt jafntefli, en tapaði einni skák.
Brandur Þorgrímsson 2,5 af 4
Brandur tefldi á 6. borði í B-sveitinni. Hann stóð sig vel í sínu fyrsta kappskákmóti. Hann hafði ekki áður teflt kappskák og var stiglaus fyrir mótið. Brandur vann eina skák, gerði eitt jafntefli og tapaði einni. Svo fékk hann gefins vinning í síðustu umferð því andstæðngur hans mætti ekki til leiks.
Smári Sigurðsson 2 af 4
Smári tefldi á 6. borði í A-sveitinni. Hann vann eina skák, gerði tvö jafntefli, en tapaði einni skák.
Hermann Aðalsteinsson 2 af 3
Hermann vann eina skák og tapaði einni. Svo fékk hann einn vinning gefins því andstæðingur hann mætti ekki til leiks. Hermann tefldi ekki í 1. umferð.
Einar Garðar Hjaltason 1,5 af 2
Einar Garðar tefldi vel. Hann vann eina skák og gerði eitt jafntefli. Einar tefldi ekki í 3 og 4. umferð.
Ævar Ákason 1 af 4
Ævar vann eina skák, en tapaði 3. Ævar átti möguleika á jafntefli í tveimur skákum en var sviðinn til taps í þeim báðum.
Sighvatur Karlsson 1 af 4
Sighvatur teldi vel og vann eina skák, en var sviðinn til taps í endatafli í tveimur skákum.
Sigurbjörn Ásmundsson 1 af 3
Sigurbjörn tapaði tveimur skákum en fékk einn vinning þegar andstæðingur hans mætti ekki til leiks í síðustu umferð líkt og Hermann og Brandur. Sigurbjörn tefldi ekki í 2. umferð.
Einar Már Júlíusson 0 af 1
Einar tefldi eina skák í 1. umferð og tapaði henni.
Við bíðum spenntir eftir seinni hlutanum í mars og vonandi gengur það eftir sem við lögðum upp með, að A-liðið vinni sæti í 3. deild að ári.
Hermann Aðalsteinsson formaður.