Janúarmót Hugins er að líkindum víðfemasta skákmót sem haldið hefur verið á landinu ef miðað er við búsetu keppenda. Þeir koma allt frá Siglufirði í vestur og Raufarhöfn í austur.
Teflt er í tveim riðlum, austur og vestur og að lokum mætast liðin í skákveislu þar sem efstu menn mætast, annað sætið o.s.frv. í keppni um endanleg sæti í mótinu. Eðli máls skv. verður jafnframt tekist á um hvort austrið eða vestrið sé sterkara; heiðurinn sjálfur er að veði!
Þriðja umferð mótsins fór fram í kvöld.
Vestur
Í vestur riðli er allt á suðupunkti því fimm keppendur eru efstir með tvo vinninga af þrem mögulegum! Umferð dagsins var tefld að Vöglum í Fnjóskadal, en þar býr skógarvörðurinn Rúnar Ísleifsson (1799).
Lífskúnstnerinn og fylkisstjóri vesturveldisins Hermann Aðalsteinsson (1342) heldur áfram góðu gengi og gerði nú jafntefli við Jakob Sævar Sigurðsson (1806). Hermann er greinilega í rosalegu formi, því hann gerði jafntefli við Hjörleif Halldórsson (1920) um helgina og markaði sú skák tímamót í skáksögunni því skákin tryggði Hermanni sín fyrstu FIDE-stig. Til hamingju Hermann!
Þá hefur verið sannað að Landssímapeningunum var sannarlega varið til uppbyggingar farsímakerfisins því svo illa vildi til að einhver þurfti nauðsynlega að ræða við skógarvörðinn um illa meðferð jólatrjáa í miðri skák. Óljóst er hver hringdi en Sigurbjörn Ásmundsson (1156) kann honum líklega sínar bestu þakkir fyrir.
Að öðru leyti voru úrslit í vestur þannig
Jakub Piotr Statkiewicz 0.5 – 0.5 Jón Aðalsteinn Hermannsson
Sigurbjörn Ásmundsson 1 – 0 Rúnar Ísleifsson
Hjörleifur Halldórsson 1 – 0 Ármann Olgeirsson
Hermann Aðalsteinsson 0.5 – 0.5 Jakob Sævar Sigurðsson
Austur
Heldur rólegra er yfir austurmönnum enda um sérstaklega vandaðan hóp manna að ræða. Umferð austurveldis fór fram á Húsavík þar sem allt er til alls og opið í sundlauginni.
Í þriðju umferð fór fram ein af stærri viðureignum mótsins þegar fv. messaguttinn hann Sigurður G. Daníelsson (1793) mætti Smára Sigurðssyni (1905). Sigurður sótti fast með talsverðum látum og tókst að lokum að saxa niður varnarmúr Smára.
Að öðru leyti voru úrslit austursins þannig í þriðju umferð
Hlynur Ski-Doo Viðarsson 1 – 0 Ævar Ákason
Heimir Bessason 0 – 1 Tómas Veigar Sigurðarson
Sigurður G Daníelsson 1 – 0 Smári Sigurðsson
Enn á eftir að ljúka þrem skákum úr 1.-3. umferð sem geta haft áhrif á stöðu mála.