Enn sannast hið fornkveðna að Hermann Aðalsteinsson (1342) er ekki sem verstur þótt hann sé í vestur. Í dag atti hann kappi við tvo stigahærri andstæðinga og uppskar 1,5 vinninga af tveim.
Í sveitinni eru menn farnir að spyrja sig til hvers að virkja Bjarnarflag eða Þeistareyki þegar hægt er að virkja Hermann!
Önnur úrslit í vestur riðli voru nokkuð eftir bókinni ef frá er talið jafntefli Jóns Aðalsteins Hermannssonar (1047) við Jakob Sævar Sigurðsson (1806) í 4. umferð.
Jakob Sævar Sigurðsson, Hermann Aðalsteinsson og Hjörleifur Halldórsson (1920) eru nú efstir og jafnir í 1.-3. sæti með 3,5 vinninga, en Jakob vermir 1. sætið eftir stigaútreikning.
Austur-Íslendingar eru heldur rólegri í tíðinni, enda aldrei fundið upp nokkurn hlut svo vitað sé, ef frá er talið fimm þumalputta vettlingur fyrir báðar hendur sem nýtur vinsælda hér eystra.
Tvær umferðir fóru fram eystra í dag og voru þrír með fullt hús að loknu dagsverkinu: Tómas Páll Egg Veigar Sigurðarson (1922), Smári Sigurðsson (1905) og Hlynur Snær Viðarsson (1090).
Tómas Veigar og Sigurður Gunnar Daníelsson (1793) fv. verðandi mjólkurbílstjóri voru efstir og jafnir eftir fyrri umferð dagsins með 4 vinninga hvor en þó ekki sömu vinningana.
Þeir félagar mættust í 5. umferð í uppgjöri efstu manna og fór viðureignin þannig að annar þeirra vann en ekki hinn, sem er talið vera afar óvenjulegt hér eystra.
Þess má geta að Palli gerði allt sjálfur.
Tómas Páll Egg Veigar Sigurðarson er því einn efstur og jafn með fullt hús eftir 5 umferðir og Hlynur Ski-Doo Viðarsson og Sigurður Gunnar Daníelsson eru næstir með 4 vinninga.