
Seinni umferð Landskeppninnar (Landsdystur) við Færeyinga fór fram í hátíðarsal SA í dag. Færeyingar höfðu þriggja vinninga forskot eftir fyrri daginn og var dagsskipunin allt annað en massívur varnarleikur.
Nokkrar breytingar voru gerðar á liði Íslands í seinni umferðinni; Halldór Brynjar Halldórsson og Haraldur Haraldsson komu inn fyrir SA og Tómas Veigar Sigurðarson og Elsa María Kristínardóttir fyrir Huginn.
Nýliðarnir byrjuðu vel og vann Elsa (1890) nokkuð öruggan sigur gegn Gutta Petersen (1639) og var fyrst til að klára sína viðureign. Því næst var röðin komin að Tómasi Veigari (1926) sem landaði öruggum sigri gegn Luitjen Apol (2056) — Tómas heldur því enn 100% árangri í keppninni, en hann hefur nú unnið 3 af 3 skákum sem hann hefur teflt — Ísland var því næstum því búið að jafna stöðuna, en átta skákum var enn ólokið.

Þá fór að síga á ógæfuhliðina, en Halldór Brynjar Halldórsson (2217) tapaði sinni skák gegn FM Ólafi Berg (2302) og Hlíðar Þór Hreinsson (2236) tapaði gegn Sjúrði Þorsteinssyni (2168) og stóðu leikar þá jafnir, 2-2. Því næst vann Björn Ívar Karlsson (2264) góðan sigur gegn Eyðun Nölsoe (2211) en Haraldur Haraldsson (1987) tapaði sinni skák gegn Herluf Hansen (2006), var því enn jafnt 3-3 og ljóst að lið Færeyinga varð að tapa öllum sem eftir voru, ef Íslendingar ættu að eiga möguleika á að jafna.
Lukkudísirnar gengu í lið með okkar mönnum þegar Jakob Sævar Sigurðsson (1786) vann á tíma gegn Hjalta Petersen (1880), eftir að þeir höfðu báðir verið í miklu tímahraki. Jón Kristinn Þorgeirsson (2227) tapaði þá sinni skák gegn Rana Nölsoe (2062) og enn var jafnt, 4-4. Þá var ljóst að forskot Færeyinga yrði ekki jafnað og sigurinn því þeirra.

Tvær skákir voru enn ókláraðar, IM Einar Hjalti Jensson (2394) tefldi hörkuskák gegn IM John Rödgaard (2348) og tókst að lokum að máta þann síðarnefnda með hrók og biskup gegn hrók. Að lokum var eftir skák Símons Þórhallssonar (2106) og John Jacobsen (1850), en sá fyrrnefndi tapaði eftir að hafa leikið af sér peði í tímahraki.
Niðurstaðan varð því 5-5 í seinni umferðinni, sem er öllu skárra en úr þeirri fyrri, en samanlagt unnu Færeyingar sem sagt 11,5 – 8,5.
Að lokum voru stutt ræðuhöld þar sem Færeyingum var þakkað fyrir drengilega keppni og þeir þökkuðu fyrir sig með gjöfum til handa Skákfélagi Akureyrar og Huginn og hrópuðu þrefalt húrra fyrir vináttu þjóðanna.
Lið Hugins stóð sig með prýði í keppninni, en samanlagt fengu okkar menn 5,5 vinninga af 10, þar af komu 4 vinningar í seinni umferðinni.
Skákstjórar voru: Hermann Aðalsteinsson og Áskell Örn Kárason.
[pgn]
[Event „Landsdystur 2015“]
[Site „Akureyri“]
[Date „2015.08.16“]
[Round „2.8“]
[White „Sigurdarson, Tomas Veigar“]
[Black „Luitjen, Apol“]
[Result „1-0“]
[WhiteElo „1927“]
[BlackElo „2056“]
[ECO „C11“]
[Opening „French: Steinitz, 5.f4 c5“]
1.e4 e6 2.d4 d5 3.Nc3 Nf6 4.e5 Nfd7 5.f4 c5 6.Nf3 Nc6 7.Be3 cxd4 8.Nxd4 Bc5
9.Qd2 a6 10.Be2 Nxd4 11.Bxd4 Bxd4 12.Qxd4 Qb6 13.Qxb6 Nxb6 14.b3 Bd7 15.Bd3
Bc6 16.a4 Nd7 17.Ne2 Nc5 18.Kd2 Nxd3 19.Kxd3 O-O 20.Nd4 Bd7 21.Rhe1 Rac8 22.g3
Rc7 23.Kd2 Rfc8 24.Re3 g6 25.Rf1 Kg7 26.Rff3 Kf8 27.Rc3 Ke7 28.Rxc7 Rxc7
29.Rc3 Rxc3 30.Kxc3 Kd8 31.Kb4 b6 32.Kc3 Kc7 33.Nf3 h6 34.h3 Kd8 35.Nh2 h5
36.Nf3 Be8 37.Kd4 Kc7 38.Ng5 Kd8 39.c4 dxc4 40.Kxc4 Ke7 41.Ne4 Bc6 42.Nf6 Bg2
43.h4 Bf1+ 44.Kd4 Bg2 45.b4 Bc6 46.a5 bxa5 47.bxa5 Kd8 48.Kc5 Kc7 49.Nh7 1-0
[/pgn]


















