6. umferð Nóa Siríusmótsins – Gestamóts Hugins og Skákdeildar Breiðablis var tefld í gær, fimmtudag.
Það var sannkölluð risaviðureign á 1. borði, en þar mættust IM Jón Viktor Gunnarsson og GM Þröstur Þórhallsson sem báðir voru skráðir með 2433 Elo-stig við upphaf móts.
Jón Viktor var einn efstur með 4,5 vinninga eftir 5. umferð og Þröstur kom fast á hæla hans með 4 vinninga. Var því tekist á um efsta sætið af fullri hörku.
Viðureigninni lauk með því að Jón Viktor Gunnarsson hafði betur og hefur því 5,5 vinninga af 6 mögulegum og heldur hálfs vinnings forystu sem hann náði í 5. umferð.
Vestfirðingurinn knái, FM Guðmundur Stefán Gíslason kemur í humátt á eftir og er með 5 vinninga eftir sigur gegn hinum unga Degi Ragnarssyni.
Jón Viktor og Guðmundur Gíslason eru báðir taplausir eftir 6 umferðir!, en þeir mætast einmitt í 7. og næst síðustu umferð n.k. fimmtudag — Ekki missa af því.
Af óvæntum úrslitum er þetta helst að frétta:
- Örn Leó Jóhannsson (2048) – Guðmundur Halldórsson (2219) 1 – 0
- Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (1992) – Magnús Teitsson (2205) 1/2 – 1/2
- Gauti Páll Jónsson (1871) – Oliver Aron Jóhannesson (2170) 1/2 – 1/2
- Tinna Kristín Finnbogadóttir (1938) – Sverrir Örn Björnsson (2117) 1/2 – 1/2
Nokkrir keppendur hafa mokað inn skákstigum það sem af er móti, má þar m.a. nefna:
- Dagur Ragnarsson (2059) hefur unnið 82,8 stig! Hann vann einnig 81,6 stig á nýafstöðnu Skákþingi Reykjavíkur og mælist því með 2223 stig – Sannarlega glæsileg frammistaða!
- Gauti Páll Jónsson (1871) hefur unnið 74,4
- Agnar Tómas Möller (1749) hefur unnið 52,4
Þá hafa fjölmargir unnið stig en í aðeins minna magni en ofangreindir.