Hraðskákkeppni taflfélaga er nýfarin af stað og margar viðureignir í þessari viku. Í gærkveldi mættust Fjölnir og SA. Þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem þessi tvö félög mætast í keppninni. Mikill vinarbragur er meðal liðsmanna enda margir helstu skákmenn beggja félaga teflt saman í unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár. Þá hafa tveir liðsmenn SA tekið virkan þátt í skákstarfi Fjölnis í gegnum störf sín fyrir Skákakademíu Reykjavíkur og m.a. margoft kennt í skákbúðum félagsins. En enginn er annars bróðir í leik eins og þar stendur. Skákfélagsmenn nokkrir hverjir höfðu hist fyrir leikinn og horft á KA-menn leika gegn Kefvíkingum í Inkasso-deildinni. KA menn eiga góðar minningar frá Keflavík en árið 1989 hampaði liðið sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli eftir sigur á heimamönnum í lokaumferðinni. Vigreifir af þeim hughrifum héldu Skákfélagsmenn í Rimaskóla þar sem teflt var við afar góðar aðstæður á kaffistofu skólans.

Liðsstjórarnir þeir Stefán Bergsson SA og Helgi Árnason Fjölni voru ansi hvumsa þegar tölur fóru að berast frá fyrstu umferð. Eftir að yfirfara úrslit á öllum borðum varð niðurstaðan ljós; 0-6 fyrir SA! Og áfram héldu þessi undur í næstu umferð: 1-5!! Þegar fjórum umferðum var lokið var staðan orðin 19.5 – 4.5 fyrir SA. Ansi ótrúlegar tölur miðað við að liðin eru nokkuð jöfn á pappírunum þó svo breidd SA sé líkast til ögn meiri. Í umferðum 5-12 jöfnuðust leikar; umferðirnar fóru alltaf 3 – 3 eða 3.5 – 2.5 fyrir öðru hvoru liðinu. Fjölnismenn náðu sumsé að bíta vel frá sér og höfðu seinni hálfleikinn 19-17.

Bestir í liði SA voru Halldór Brynjar Halldórsson og Björn Ívar Karlsson sem báðir fengu níu vinninga af tólf mögulegum. Björn var taplaus fram í tólftu umferð þegar hann tapaði fyrir Sigurbirni Björnssyni. Sigurbjörn stóð sig best heimamanna með sjö vinninga af tólf. Oliver Aron Jóhannesson og Dagur Ragnarsson fengu báðir sex vinninga af tólf.

 

Einstaklingsúrslit SA:

Björn Ívar Karlsson 9v/12

Rúnar Sigurpálsson 5v/12

Halldór Brynjar Halldórsson 9v/12

Jón Kristinn Þorgeirsson 6v/9

Símon Þórhallsson 5.5v/9

Mikael Jóhann Karlsson 6v/11 (vann fimm fyrstu!)

Arnar Þorsteinsson 1.5v/3

Óskar Long Einarsson 0v/3

Stefán Bergsson 1v/1

 

Einstaklingsúrslit Fjölnis

Sigurbjörn Björnsson 7v/12

Tómas Björnsson 3.5v/10

Dagur Ragnarsson 6v/12

Oliver Aron Jóhannesson 6v/12

Jón Trausti Harðarson 3v/10

Erlingur Þorsteinsson 1.5v/7

Jón Árni Halldórsson 0.5v/5

Hörður Aron Hauksson 1.5v/4

 

Heildarúrslit:

SA 43 – Fjölnir 29

 

Ljóst er af þessum úrslitum að Skákfélagsmenn eru til alls líklegir í næstu umferð keppninnar. Hafði þriðja borðs maður félagsins Halldór Brynjar það eftir sér að hann vildi helst mæta Skákgenginu í næstu umferð en Skákgengismenn fengu sitt skákuppeldi innan Skákfélagsins á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Óskoraður leiðtogi þeirra hann Páll Þórsson var einmitt á keppnisstað í gær og hvatti fyrrum félaga sína í SA óspart áfram. Félagsmenn SA og Skákgengis munu allmargir mæta á Sigufjörð um aðra helgi til að taka þátt í Skákþingi Norðlendinga. Eru allir skákmenn hvattir til þátttöku á því rómaða móti sem haldið hefur verið í marga áratugi.