Frá mótinu
Það voru 124 keppendur á Capo D´Orso Open á Sardiníu og fullt af Íslendingum, t.d. Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, og Friðrik Ólafsson. Það er nú ekkert slæmt að tefla í svoleiðis félagsskap! Þarna voru líka Áskell Kárason, Gunnar Björnsson, Stefán Bergsson, Óskar Long, Loftur Baldvinsson og Hörður Jónasson. Svo voru margir með fjölskyldurnar með og það voru allir rosalega skemmtilegir í hópnum, enda eru þetta allir snillingar. Svo var líka fullt af krökkum að keppa, Þorsteinn Magnússon, Balti og Birgir, félagar mínir og svo Stebbi litli bróðir minn. Þeir þrír voru að tefla á sínu fyrsta alþjóðlega móti.
Hetja mótsins var síðan eiginlega hún Verónika, sem að endaði með 5,5 vinninga, fékk glás af verðlaunum og hækkaði um 121 stig! Heimir Páll var líka alveg að brillera, hann fékk 4,5 vinninga og hækkaði um 120 stig.
Aðstæður á mótinu voru góðar, veðrið var geðveikt gott, það voru alltaf yfir 30 stig, en skáksalurinn var mjög góður með loftkælingu í. Það voru líka allir rosalega vingjarnlegir, bara einn dálítið klikkaður Ítali, en ég endaði á að vinna hann í lokaumferðinni þannig að var bara fínt. Ég sá síðar að Hilmir Freyr vann hann á skákmóti á Ítalíu 2012, svo að kannski hefur hann bara verið kominn með nóg af íslenskum skákkrökkum.
Það sem er ágætt við þetta mót er að Ítalirnir eru alltof stigaháir miðað við getu, svo að það er þægilegt að tefla á móti þeim og auðvelt að fá stig. Skákstjórinn hann Garrett, var alveg galinn með tæki að skanna fólk vinstri og hægri til að koma í veg fyrir svindl. Svo var einn blindur skákmaður, og það var dálítið flott að sjá hann tefla. Hann gerði sex jafntefli en var samt alltaf að fara út að reykja í skákunum. Fólk reykir nú ekki eðlilega mikið þarna á Ítalíu.
Húsið sem við bjuggum í niðri við strönd var æðislegt og við fórum mjög oft á ströndina með vindsængur úti í sjó, spiluðum strandblak og fótbolta við ítalskan strák, og spiluðum fullt af gúrku. Svo fórum við líka í gönguferð upp á Björninn sem staðurinn og mótið heitir eftir (Orso þýðir björn á ítölsku). Maturinn var hrikalega góður, en Íslendingarnir voru samt það skemmtilegasta við mótið.
Loftur og Óskar gætu sko fengið sér vinnu við að skemmta öðru fólki, þeir eru svo fyndnir. Loftur sagðist vera með 2800 í performance rating í að tana, sem var eiginlega alveg rétt því að hann var orðinn eins og svertingi á litinn.
Ég byrjaði mótið bara vel og vann fyrstu tvær skákirnar. Pörunin er dálítið sniðug þar sem öllum er skipt í hópa og ég var þá að tefla niður fyrir mig í fyrstu skákinni, en vann mig svo upp í efri hópa.
Ég tefldi ágætlega, nema þegar ég tefldi á móti frábærum gaur sem er alþjóðlegur meistari frá Hollandi, sem tók mig í nefið. Ég endaði með fjóra vinninga, 38 stig í plús og var bara sæmilega sáttur í heildina. Í sjöttu umferð tefldi ég við Ítala, Domenico Blasco sem er með 1925 stig, en sem að einu sinni var með 2370 stig en hefur lækkað yfir dálítið langan tíma. Ég var búinn að undirbúa mig svakalega fyrir nokkur afbrigði af Pirc vörn og fattaði þegar ég kom að borðinu að ég var með svart en ekki hvítt og var að tefla á móti drottningarpeðsopnun! Ég var dálítið fúll, því að ég var harðákveðinn í að vinna karlinn. Svo var ég orðinn ágætlega hress því að ég var að vinna hann og fór að tefla aðeins hraðar. Sá gamli, sem að var bara feginn að tefla við einhvern krakka var farinn að ofanda við borðið, blása og svitna hrikalega. Í 27. leik gerði ég mögulega versta afleik í veröldinni, þið verðið að athuga að ég hafði bara tvo reiti fyrir kónginn og eins og asni tefldi ég F7 í staðinn fyrir F8!! og var með koltapað í staðinn fyrir að vera með unnið. Þvílíkur mórall. Ég var hins vegar ánægður með afganginn af skákinni, en það er ekki nóg, því að maður verður að klára og vinna.
[pgn] [Event „Capo D´Orso Open 2015“] [Site „?“] [Date „2015.06.10“] [Round „6“] [White „Blasco, Domenico“] [Black „Davidsson, Óskar Víkingur“] [Result „1-0“] [ECO „D05“] [WhiteElo „1925“] [BlackElo „1654“] [PlyCount „55“] [SourceDate „2015.06.28“] 1. d4 Nf6 2. Nf3 e6 3. e3 b6 4. Bd3 Bb7 5. Nbd2 d5 6. O-O Nbd7 7. b3 Bd6 8. Bb2 c5 9. Ne5 Qc7 10. f4 h6 11. Qe2 Be7 12. Rac1 Rc8 13. f5 O-O 14. fxe6 fxe6 15. Ng6 Rf7 16. Nxe7+ Rxe7 17. dxc5 bxc5 18. c4 Qb6 19. Qf2 Rf8 20. Qh4 Ree8 21. Rf2 Qd6 22. Rcf1 Re7 23. h3 Ne5 24. Qg3 Nxc4 25. Qg6 Nxb2 26. Rxf6 Rxf6 27. Qh7+ Kf7 28. Bg6+ 1-0 [/pgn]
Önnur skák sem mig langar að sýna ykkur er úr annarri umferð þar sem ég var að tefla á móti Ítala, Giuseppe Crappulli (1869). Hún er dálítið taktísk og þess vegna skemmtileg, ég tefldi Taimanov varíant í Sikileyjarvörn en hann tefldi ensku árásina á móti. Ég tefldi svosem ekkert rosalega vel þarna í annarri umferð, en náði þó að vinna.
[pgn] [Event „Capo D´Orso“] [Site „?“] [Date „2015.06.07“] [Round „2“] [White „Crappulli, Giuseppe“] [Black „Davidsson, Oskar“] [Result „0-1“] [ECO „B48“] [WhiteElo „1869“] [BlackElo „1654“] [PlyCount „72“] [SourceDate „2015.06.28“] 1. e4 c5 2. Nf3 e6 3. d4 cxd4 4. Nxd4 Nc6 5. Nc3 Qc7 6. Be3 a6 7. Qd2 Nf6 8. f3 Bb4 9. O-O-O O-O 10. g4 Qa5 11. Kb1 Bxc3 12. bxc3 Ne5 13. g5 Nxf3 14. Nxf3 Nxe4 15. Qd4 Nxc3+ 16. Kc1 Nxd1 17. Kxd1 d5 18. a4 Bd7 19. Ne5 Bxa4 20. Ng4 Rac8 21. Bd3 b5 22. Nf6+ Kh8 23. Nxh7 Rfd8 24. Nf6 Bxc2+ 25. Bxc2 Rc4 26. Qd3 g6 27. Bd4 Kg7 28. Nd7+ Kg8 29. Ne5 Qb4 30. Ba1 Rcc8 31. Nxg6 Qg4+ 32. Ke1 Qxg5 33. Ne7+ Kf8 34. Nxc8 Rxc8 35. Qe2 Qc1+ 36. Qd1 Rxc2 0-1 [/pgn]
Takk fyrir, stuðningsaðilarnir mínir og líka allir sem að voru úti á Sardiníu, því það voru allir svo jákvæðir og mjög hvetjandi, sem að hjálpar manni alveg rosalega við taflmennskuna. Ég væri alveg til í að fara á þetta sama mót aftur eftir ár.
Óskar Víkingur Davíðsson
