Huginsmaðurinn Óskar Víkingur Davíðsson náði þeim frábæra árangri að ná öðru sætinu á Norðurlandamóti í skólaskák sem fram fór í Klakksvík í Færeyjum um síðustu helgi. Hann er 9 ára og keppti í E-flokki keppenda sem fæddir eru 2004 og 2005 og hefur hann því áfram keppnisrétt í flokkum að ári.
Óskar var fimmti í stigaröð keppenda, og hóf mótið ekki vel því að hann tapaði á móti stigalausum Norðmanni, sem kunni þó sitthvað fyrir sér í skák, enda segja skákstigin nú ekki allt hjá yngstu keppendunum. Daninn Jonas Bjerre þótti lang sigurstranglegastur fyrir mótið en hann skartar 2216 skákstigum, þrátt fyrir að vera aðeins 10 ára að aldri og er næst stigahæstur skákmanna í veröldinni á þessum aldri. Ekki nóg með að hann væri stigahærri en allir í íslenska liðinu, þá var hann stigahæstur allra keppenda í C, D og E flokkum! Drengur þessi er helsta vonarstjarna Dana, sem hafa trú á því að þar sé fram kominn næsti Magnús Carlsen, enda leggur hann gífurlegan tíma í skákina, bæði í stúderingar og keppnir. Hann tefldi undir vökulu auga föður síns sem er sjálfur alþjóðlegur meistari.
Óskar var taplaus í mótinu eftir þessa brösugu byrjun. Í annarri umferð tefldi Óskar við félaga sinn Róbert Luu sem að hafði náð jafntefli í fyrstu umferð, en svo fór að Óskar vann í þeirri viðureign. Í þriðju umferð lagði Óskar stigalausan Færeying nokkuð auðveldlega að velli og gerði svo jafntefli við Svíann Sandberg í fjórðu umferð. Þar yfirsást Óskari vinningsleið, en var þó sáttur við úrslitin. Þá kom að því að Óskar tefldi við danska undrabarnið og náði einnig jafntefli við hann. Eitthvað hafa þessi úrslit slegið danska undrið út af laginu, því að hann gerði einnig jafntefli í lokaumferðinni, en vann engu að síður mótið örugglega með 5 vinninga af 6. Í lokaumferðinni tefldi Óskar Víkingur við Afras Mansoor (1599) hinn norska og mátaði hann eftir rétt rúmlega 60 leiki og tryggði sér þar með silfrið í flokknum. Hann hækkar um 69 skákstig eftir þessa frammistöðu, en skákir mótsins má skoða inni á chessbomb.com og úrslit inni á chess-results
Óskar Víkingur hefur verið í hópi sterkustu skákmanna Íslands af yngri kynslóðinni undanfarin ár en hann hlaut fyrr á árinu titilinn Íslandsmeistari barna. Mikil keppnisreynsla kom Óskari til góða á mótinu, enda er auðvelt að misstíga sig í skákinni þegar verið er að keppa á fyrstu mótunum. Hann hefur verið iðinn við æfingar og hefur notið handleiðslu frábærra skákþjálfara, m.a. GM Hjörvars Steins Grétarssonar, GM Helga Ólafssonar, Björns Ívars Karlssonar, Davíð Ólafssonar og Vigfúsar Vigfússonar en er jafnframt duglegur að læra sjálfur, sem að er grundallarforsenda fyrir góðum árangri. Gunnar Björnsson og Stefán Bergsson, liðsstjórar Íslands á mótinu voru öflugir við að hjálpa yngstu keppendunum við undirbúning fyrir viðureignir og Rúnar Berg mætti einnig á svæðið með góð ráð í farteskinu. Aðbúnaður á mótinu var einnig til fyrirmyndar hjá Færeyingunum og samheldni íslenska hópsins mikil, sem að hvetur alla til dáða við skákborðið.
Skákfélagið Huginn óskar þessum efnilega skákmanni innilega til hamingju með árangurinn!