10.10.2012 kl. 23:01
Rífandi stemning í Rimaskóla !
Pistill um
framgöngu A- og B- sveita Goðans-Máta á
Íslandsmótinu.
Þátttaka í Íslandsmóti skákfélaga er orðin að
samfelldri skemmtun. Þegar einni stórhelginni lýkur fara menn strax að hlakka
til þeirrar næstu og tengingin verkar líka á hinn veginn. Þannig var skákhelgin
mikla á Selfossi í mars sl. okkur enn í fersku minni þegar við bjuggum okkur
undir átökin í Rimaskóla 5.-7. okt. Við Goðar gleymum því seint þegar við
stóðum á verðlaunapalli í Hvíta húsinu á Selfossi og tókum við okkar fyrsta
bikar, umvafðir hlýju sunnlensku viðmóti og heillaóskum keppinauta. Til að gera
viðburðinn enn eftirminnilegri kom í lokin til ryskinga fyrir utan staðinn eins
og greint var frá í fréttum. Deiluefnið reyndist vera tiltekið afbrigði í
Slavanum þar sem blóðheita skákmenn greindi á um ágæti þess að leika riddara snemma
tafls til a6. Sem betur fer gengu góðir menn á milli og deilendur mynntust að
sunnlenskum sið enda fráleitt að láta riddarafant úti á kanti rjúfa friðinn.
Óvænt
uppákoma
Þátttaka Goðans-Máta í Íslandsmótinu um síðustu
helgi var sérstök vegna þess hve skammt var síðan félögin runnu í eitt. Til
þess að efla liðsandann var öllum þeim sem keppa áttu á föstudagskvöldinu boðið
til sameiginlegs málsverðar í Suðurvanginum í Hafnarfirði. Vel tókst til með
samhristinginn en þó kom óvænt babb í bátinn þegar ljóst varð skömmu fyrir
teitina að fyrirtækið sem tekið hafði að sér að framleiða nýjar keppnistreyjur
sameinaðs félags hafði týnt þeim.
Nú voru góð ráð dýr. Forsvaramenn fyrirtækisins
stungu upp á því að bjarga málunum með því að lána okkur aðra tegund einkennisfatnaðar
sem þeir áttu á lager. Þetta reyndust vera Spiderman-búningar sem eitthvert
fjármálafyrirtækið hafði pantað á hátindi sannfæringar sinnar um eigið ágæti og
nota átti á framkvæmdastjórnarfundi rétt fyrir hrun undir einkunnarorðum
ofurmennisins: „Miklu afli fylgir mikil ábyrgð.“
Sá íturvaxnasti í okkar hópi, Arnar Grant,
snaraði sér í einn Spiderman-búninginn af faglegum þokka og gekk meðal
matargesta. Varð mörgum bilt við. Allir viðstaddir greiddu í kjölfarið atkvæði
um það hvort þeir væru fúsir til þess að keppa í þessu sérstaka gervi. Niðurstaðan
var sú að 56,3% voru reiðubúin, 28,6% voru andvíg en 15,1% voru tilkippileg ef
sleppa mætti öðru hvoru, grímunni eða búningnum.
Við þetta tækifæri flutti skákdrottningin
glæsilega Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ávarp þar sem hún hvatti nýja félaga
sína til dáða en sagði að tilfinningar sínar blendnar á þessari stundu. Það
væri ljúfsárt að koma út úr Hellinum en við tæki spennandi kafli á
skákferlinum. Þvínæst kvaddi Hermann formaður sér hljóðs og færði undirrituðum
veglega mynd að gjöf eftir Halldór Baldursson skopmyndateiknara, sem fléttaði listavel
saman undirrituðum og hugmyndum manna um Neanderdalsmanninn.
Þegar Goðar-Mátar höfðu matast og tæplega 70%
þeirra íklæðst Spiderman-búningnum, heyrðist skyndilega bremsuhljóð mikið fyrir
utan Suðurvanginn. Var þar kominn sendibifreiðarstjóri nokkur allsneyptur og með
írafári miklu. Hann baðst margfaldrar afsökunar á að hafa farið með
GM-treyjurnar í Bílabúð Benna í misgáningi. Var viðstöddum fyrirmunað að skilja
hvernig sá misskilningur gæti verið tilkominn.
Fram, fram aldrei að víkja…
Þegar í Rimaskóla var
komið gengum við fylktu liði og sperrtum brjóskassa inn í keppnissalinn, álíka
upplitsdjörf og forfeður okkar og formæður þegar þau skunduðu á Þingvöll á
söguöld, en þó vantaði litklæði Spiderman-búningsins í sýningu þessa. Reyndar
var Hermanni formanni létt eftir á þegar hann áttaði sig á því að ef A-liðið
hefði íklæðst Spiderman-búningnum og Goðinn-Mátar unnið stórsigur, hefði mátt
bera okkur þeim sökum að Gawain Jones hefði teflt allar skákirnar.
Tæpast er unnt að lýsa
þeirri stórkostlegu stemningu sem mætti okkur á skákstað. Loftið var mettað
breiðu litrófi tilfinninga: tilhlökkun, vinarþeli, grimmd, sigurvilja, ótta,
auðmýkt, hroka, háspennu, svekkelsi og sigurvímu. Mitt í þessu lævi blandna
andrúmslofti lék mönnum þó bros á vör og það bros er ekta. Keppendum eru upp
til hópa vel til vina og liðsstjórar líkjast bændum sem fylgjast hreyknir með
gripunum sínum í réttunum. Stöku forvígismenn ofmetnast kannski um stund en sjá
fljótlega að sér og verða sömu ljúfmennin og fyrr. Sérstaklega var gaman að sjá
tvær af goðsagnapersónum íslenskrar skáksögu, þá Friðrik Ólafsson og Margeir
Pétursson, setjast að tafli á ný. Þátttaka þeirra ein og sér lyfti þessum viðburði
á hærra plan.
Stiklur úr orrustum
Í fyrstu umferð tókst
A-lið Goðans-Máta á við Hellismenn og hafði sigur, 5-3. Sérstaka aðdáun vakti
hve vasklega Hjörvar Steinn varðist beinskeyttri árás stafnbúa Goðans, Gawain
Jones, og hélt jöfnu. Vera kann að Gawain hafi fundið til samkenndar með rauða
hárinu en hann er frá Jórvíkurskíri og allir hans forfeður meira og minna
rauðhærðir enda afkomendur víkinga en sjálfur er hann dökkur yfirlitum líkt og
Egill Skalla-Grímsson. Á sama tíma sigraði B-lið okkar B-lið Hellis 4-2 þar sem
sigur vannst á á 5. og 6. borði en öðrum skákum lauk með jafntefli.
Í annarri umferð atti
A-sveitin kappi við A-sveit Akureyringa og sigraði með minnsta mun, 4,5-3,5
eftir snarpa viðureign þar sem talsvert var um óvænta afleiki. B-sveit
Goðans-Máta gerði jafnt við A-sveit Skákfélags Reykjanesbæjar þar sem nokkrar
skákir skiptu um eigendur.
Í þriðju umferð laust
A-liðinu saman við B-sveit Bolungarvíkur og unnu okkar menn þá viðureign
5,5-2,5. Þröstur Þórhallsson og Kristján Eðvarðsson unnu báðir sína þriðju skák
í þessari lotu. Á meðan lagði B-lið okkar A-lið Fjölnis 4-2 þar sem Arngrímur
Gunnhallsson vann sína 3. skák í röð og lauk því þátttöku sinni með fullu húsi
eins og oft áður.
Í 4. umferð mætti A-liðið
loks ofjörlum sínum, Taflfélagi Reykjavíkur, og tapaði 2-6. Stafnbúinn, Gawain
Jones, sótti mjög hart að Yuriy Kryvoruchko á 1. borði en sá úkraínski slapp
fyrir horn í blálokin, vígmóður mjög eftir krappa vörn. Arnar Þorsteinsson
gerði gott jafntefli við sjálfan Friðrik Ólafsson og Magnús Teitsson hreppti
sigur gegn Margeiri Péturssyni með Vodafone-gambítnum svonefnda.
Niðurstaða
Hér kom vel í ljós
munurinn á nokkuð þéttri sveit Goðans-Máta annars vegar sem tefldi fram
Íslendingum á sjö borðum af átta og hins vegar ofursveit TR sem var með fjóra
mjög öfluga útlendinga í sínum röðum auk sterkra heimamanna. Mönnun A-sveitar
Goðans-Máta var einfaldlega í samræmi mið markmið þessarar leiktíðar: Að halda
sæti sínu í 1. deild og afla Íslendingunum í liðinu dýrmætrar leikreynslu. B-liðið
var fyrir þessa umferð í 2. sæti og tefldi við liðið í því þriðja, Skákdeild
Hauka. Skemmst er frá að segja að góður sigur vannst, 5-1.
Að þessum fyrri hluta
Íslandsmótsins loknum er A-sveit Goðans-Máta í 5. sæti í 1. deild og B-sveitin
í 1. sæti í annarri deild. Hvort tveggja er eins og að var stefnt og telst
árangurinn því prýðilegur. Liðsmönnum Goðans-Máta þakka ég vasklega framgöngu
og einbeittan vilja til að mynda sterka liðsheild í kjölfar
sameiningarinnar. Keppinautum þakka ég
drengilega keppni og ánægjulegar samverustundir.
Og
eitt er víst: lokaumferðirnar í mars
verða hreint magnaðar!
Með skákkveðju,
Jón Þorvaldsson,
liðsstjóri.
PS: Að vanda mun Hermann
Aðalsteinsson, formaður og liðsstjóri C- og D-liða Goðans-Máta gera grein fyrir
sínum sveitum.
