Rúnar Ísleifsson er efstur með fullt hús vinninga þegar aðeins tveim skákum er ólokið á Skákþingi Hugins á Húsavík. Rúnari nægir jafntefli gegn Hermanni Aðalsteinssyni í lokaumferðinni til að tryggja sér sigur í mótinu og meistartitil Hugins á Húsavík 2019 í leiðinni. Rúnar gæti þó unnið mótið áður en skák hans við Hermann fer fram því vinni Ævar Hermann, eða sú skák endi með jafntefli, getur Hermann ekki lengur náð Rúnari að vinningum sama hvernig fer í þeirra viðureign í lokaumferðinni.
Hermann , sem á tvær skákir eftir gegn Ævari og Rúnari í lokaumferðinni, er sá eini sem getur náð Rúnari að vinningum vinni hann báðar skákirnar sem hann á eftir. Gangi það eftir verða þeir Rúnar og Hermann efstir og jafnir á mótinu og mun því stigaútreikningur skera úr um sigurvegarann. Ævar Ákason getur náð 4. sætinu vinni hann Hermann og Rúnar vinni Hermann í lokaumferðinni.
Staðan fyrir síðustu tvær skákirnar.
- Rúnar Ísleifsson 5 vinningar (1 skák eftir)
- Kristján Ingi Smárason 4 vinningar
- Smári Sigurðsson 4 vinningar
- Hermann Aðalsteinsson 3 vinningar (2 skákir eftir)
- Ævar Ákason 2 vinningar
- Sigurbjörn Ásmundsson 1 vinningur
- Sigurður Daníelsson 0 (tefldi ekki vegna veikynda)
Athygli vekur góður árangur Kristjáns Inga Smárasonar sem er einungis 10 ára gamall. Kristján hefur lokið sínum skákum og er sem stendur í 2. sæti með 4 vinninga. Kristján tapaði aðeins einni skák gegn Rúnari, gerði tvö jafntefli og vann tvær skákir í mótinu. Aðeins Hermann getur komið í veg fyrir að Kristján Ingi haldi verðlaunasætinu í mótinu. Útlit er fyrir að lokaskákirnar fari fram á heimavelli Rúnars að Vöglum í Fnjóskadal um helgina.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni teflir Kristján Ingi fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í skólaskák sem fram fer í Borgarnesi um helgina. Óhætt er að segja að afar frovitnilegt verði að fylgjast með gengi hans á mótinu.