Hið árlega og alþjóðlega hraðskákmót Hugins (N) fór fram sunnudaginn 17. desember.

Níu glæsileg ungmenni (hvað allir athugi!) frá allt að tveimur þjóðlöndum voru mætt til leiks og tefldu einfalda umferð, allir við alla.

Tveir keppendur tóku fljótt forystuna í mótinu og mátti vart á milli sjá hvor þeirra yrði hlutskarpari. Að endingu fór það svo að þeir mættust í innbyrðis viðureign, sem var talið harla óvenjulegt í “allir við alla” móti á Húsavík, en ungmennin glæsilegu létu það ekki á sig fá og voru engin álitamál send stjórnvöldum til úrlausnar vegna þessa. Hin meintu glæsilegu ungmenni voru eðli máls skv. þeir Smári Sigurðsson og Tómas Veigar. Skákinni lauk að lokum og urðu úrslit á þann veg að annar þeirra vann. Sprúðlandi frammistaða.

Tómas Veigar fór því með sigur af hólmi, enda þurftu allir átta andstæðingar hans að lúta í dúk að þessu sinni. Smári Sigurðsson var í öðru sæti með 7 vinninga.

Annað glæsilegt ungmenni, Sigurður G Daníelsson, sem búsettur er viljandi á Raufarhöfn, sýndi á köflum glæsilega takta, ekki síst á málflutningssviðinu, hreppti þriðja sætið með 5 vinninga.

Síðast en alls ekki síst var það Kristján Ingi Smárason sem stóð sig best í flokki yngri keppenda, en hann lagði að velli nokkra af reynsluboltum mótsins. Afar góð frammistaða hjá þessum efnilega skákmanni!

Lokastaðan:

Sæti Nafn Þjóð Stig Vinningar
1 Sigurdarson Tomas Veigar ISL 1988 8
2 Sigurdsson Smari ISL 1974 7
3 Danielsson Sigurdur ISL 1977 5
4 Asmundsson Sigurbjorn ISL 1522 4
5 Adalsteinsson Hermann ISL 1672 4
6 Karlsson Sighvatur ISL 1261 3
7 Smarason Kristjan Ingi ISL 1444 3
8 Akason Aevar ISL 1476 1
9 Brocker Max ISL 0 1

 

Myndasafn