Stefán Kristjánsson stórmeistari genginn í GM Helli

Stefán Kristjánsson, stórmeistari í skák, er genginn til liðs við Skákfélagið GM Helli.Stefán er þriðji íslenski stórmeistarinn sem gengur félaginu á hönd en fyrir eru þeir Þröstur Þórhallsson og Helgi Áss Grétarsson.

Fastus 1. verðl. (640x427)
 

Stefán Kristjánsson vann sigur á Fastus-mótinu 2013 

Skákferill Stefáns hófst árið 1993 þegar hann tefldi fyrir skáklið Melaskóla, þá ellefu ára að aldri. Þetta geðþekka ungmenni varð fljótlega einn efnilegasti skákmaður landsins og á næstu árum sigraði hann á fjölmörgum barna- og unglingamótum. Styrkur Stefáns óx jafnt og þétt.

Árið 2000 tefldi hann fyrst fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuskákmótinu í Istanbúl og náði þar prýðisárangri. Stórmeistaranafnbótina ávann hann sér svo árið 2011.

Hermann Aðalsteinsson, formaður GM Hellis:  „Þetta eru ánægjuleg tíðindi. Stefán verður okkur góður liðsstyrkur enda er hann einn sigursælasti skákmaður landsins á Íslandsmóti skákfélaga frá upphafi.”

Stjórn og liðsmenn GM Hellis bjóða Stefán Kristjánsson velkominn í sínar raðir.