3.10.2011 kl. 13:12
Stephen Jablon löglegur með Goðanum
Ár
2011, mánudaginn 3. október, er tekið fyrir mál nr. 1/2011; beiðni
Taflfélags Vestmannaeyja (TV) um athugun á lögmæti Stephen Jablon
(FIDE-kennitala 2019833 begin_of_the_skype_highlighting 2019833 end_of_the_skype_highlighting)
sem keppanda með Skákfélaginu Goðanum (SG) í fyrri hluta Íslandsmóts
skákfélaga 2011-2012. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Áskell
Örn Kárason og Helgi Árnason.
Málavextir og ágreiningsefni:
Framangreint erindi TV barst mótsstjórn með tölvupósti 29. september 2011. Þar segir m.a. svo:
„Taflfélag
Vestmannaeyja (TV) fer þess hér með á leit við mótsstjórn Íslandsmóts
skákfélaga að hún úrskurði um lögmæti félagaskipta Stephen Jablons (frá
USA) í skákfélagið Goðann, laugardaginn 17. september sl. varðandi
þátttöku hans með skákfélaginu Goðanum í Íslandsmóti skákfélaga í
október nk. þar sem deildar meiningar (ágreiningur) hafa komið fram um
það hvenær frestur til tilkynninga skv. 18. gr. skáklaga Skáksambands
Íslands rann út í ár.
Þar sem kveðin rök hníga því að því
að Stephen sé ekki löglegur og ljóst er að hann mun tefla í sömu deild
(4. deild) og sveitir frá TV, taki hann þátt, er brýnt að fá úr þessu
skorið enda ólíðandi að þurfa að tefla í andrúmi slíkrar óvissu. Ég fer
því fram á að mótsstjórn úrskurði um þetta mál án tafar.“
Stephen Jablon verður löglegur með Goðanum á Íslandsmóti skákfélaga.
Með tölvupósti mótsstjórnar 29. september 2011 var lagt fyrir TV að
gera nánari grein fyrir ástæðum þess að félagið teldi vafa leika á
lögmæti Stephen Jablon til þátttöku með SG í Íslandsmóti skákfélaga
2011.
Svar barst frá TV með tölvupósti sama dag. Þar segir svo:
„Skáksambandið
gaf út sérstaka tilkynningu á Skák.is þar sem fram kom að síðasti dagur
fyrir skráningar væri 16. september sbr. eftirfarandi: „Athugið að
tilkynningar v. Keppendaskrár Skáksambands Íslands skulu hafa borist SÍ í
síðasta lagi 16. september nk. sbr. 18. gr. skáklaga…“
Samkvæmt
þessari tilkynningu ættu því þeir sem skráðu sig í félag 17.september
að vera ólöglegir. Þar af leiðandi er rétt að úr því sé skorið hvort
Stephen Jablon, sem var skráður eftir að útgefinn skráningarfrestur rann
út, er ólöglegur eður ei.
Það eru fordæmi fyrir því að
menn hafi verið dæmdir ólöglegir vegna þess að þeir hafa verið skráðir í
félag eftir að skráningarfresturinn rann út og í því sambandi ber
kannski Dreev málið hæst. Það verður því áhugavert að sjá hvort hin
háæruverðuga mótsstjórn er sama sinnis nú og hún var í því máli.“
Með
tölvupósti mótsstjórnar 29. september 2011 var formanni SG með vísan
til 20. gr. skáklaga Skáksambands Íslands (SÍ) gefinn kostur á að koma á
framfæri athugasemdum í tilefni af beiðni TV.
Svar barst frá SG með tölvupósti sama dag. Þar segir svo:
„Við
hjá skákfélaginu Goðanum teljum að Stephen sé löglegur með Goðanum í
keppninni enda hljóti lög og reglur Skáksambandsins gilda og löglega
gefinn frestur hafi sannanlega ekki verið runninn út þegar hann var
skráður í Goðann.“
Niðurstaða:
Eins og fram
kemur í málavaxtalýsingu hér að framan lýtur ágreiningur í máli þessu
eingöngu að því hvort tilkynning um skráningu Stephen Jablon í
Skákfélagið Goðann, sbr. 2. gr. reglugerðar um Keppendaskrá
Skáksambandsins, hafi verið send Skáksambandi Íslands innan lögmælts 20
daga frests samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skáklaga Skáksambands Íslands. Af
hálfu Skákfélagsins Goðans er talið að tilkynningin hafi verið send
innan frestsins. Af hálfu Taflfélags Vestmannaeyja er hins vegar litið
svo á að vafi leiki á því og þar með lögmæti Stephen Jablon til þátttöku
í Íslandsmóti skákfélaga. Ekki er því haldið fram í málinu að aðrar
ástæður en hér greinir kunni að leiða til ólögmætis Stephen til þátttöku
í mótinu.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. skáklaga
Skáksambands Íslands teljast aðeins þeir sem eru í Keppendaskrá SÍ
löglegir með viðkomandi félagi í Íslandsmóti skákfélaga (fyrri og seinni
hluta). Þó eru þeir skákmenn sem eru án skákstiga og án félags
undanþegnir því að þurfa að vera í Keppendaskránni. Fyrir liggur að
þessi undantekning á ekki við um Stephen Jablon sem er skráður með 1965
alþjóðleg skákstig á stigalista Alþjóðaskáksambandsins (FIDE).
Í 2. gr. reglugerðar um Keppendaskrá Skáksambandsins kemur fram að
skipti skákmaður um félag, nýskráist í það eða hættir í því skal hann
tilkynna SÍ það á þar til gerðu eyðublaði. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr.
skáklaga skal tilkynning skákmanns samkvæmt 2. gr. reglugerðar um
Keppendaskrá Skáksambandsins hafa verið send 20 dögum fyrir upphaf fyrri
hluta Íslandsmóts skákfélaga ella getur hann ekki teflt fyrir sitt nýja
félag í því.
Við skýringu á frestákvæði 2. mgr. 18.
gr. skáklaga þykir bera að hafa hliðsjón af viðtekinni túlkun hliðstæðra
ákvæða í öðrum lögum um fresti sem taldir eru í dögum. Er þá jafnan
miðað við að sá dagur, sem frestur er talinn frá, teljist ekki með innan
frestsins. Fyrsti dagur við talningu frests er því sá dagur sem kemur á
eftir eða eftir atvikum á undan þeim degi sem fresturinn er reiknaður
frá. Þessa skýringarreglu er nú m.a. að finna í 1. mgr. 8. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem hér má hafa til hliðsjónar. Þá standa
rík hallkvæmnisrök til þess, þegar svo stendur á að frestir eru taldir í
heilum dögum en upphaf þeirra markast af atvikum innan dags, eins og
hér á við, að miða frestlok allt að einu við lok dags, þ.e. miðnætti á
síðasta degi frests.
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2011-2012
hefst í Rimaskóla föstudaginn 7. október 2011. Óumdeilt er í málinu að
tilkynning um skráningu Stephen Jablon í Skákfélagið Goðann var send SÍ
laugardaginn 17. september 2011, nánar tiltekið kl. 19:56:03 eftir því
sem næst verður komist. Samkvæmt þessu var tilkynningin send SÍ innan
lögmælts 20 daga frests samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skáklaga, enda rann
fresturinn ekki út fyrr en á miðnætti sama dag. Stephen Jablon telst því
löglegur keppandi með Skákfélaginu Goðanum í fyrri hluta Íslandsmóts
skákfélaga 2011-2012.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stephen Jablon (FIDE-kennitala 2019833 begin_of_the_skype_highlighting 2019833 end_of_the_skype_highlighting) telst löglegur keppandi Skákfélagsins Goðans í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga 2011-2012.
Um málskot:
Úrskurði
þessum má skjóta til Dómstóls SÍ. Kærufrestur er þrír sólarhringar frá
upphafi þeirrar umferðar sem keppandi var á meðal þátttakenda.
