25.5.2012 kl. 10:11
Vel heppnað skemmtikvöld Goðans
Liðsmenn Goðans og velunnarar á höfuðborgarsvæðinu komu saman til léttrar æfingar á miðvikudagskvöld þar sem áherslan var sem fyrr á góðan félagsskap, góðar veitingar og góða taflmennsku. Skemmtikvöldið hófst með því að Kristján Eðvarðsson hélt vandaðan og áhugaverðan fyrirlestur um strategíska hugsun í byrjunum og svaraði fimlega skarplegum athugasemdum félaga sinna.

Kristján Eðvarðsson í Reykjavík Open.
Að afloknu veitingahléi var efnt til hraðskákmóts þar sem 10 öflugir skákmenn tókust á. Að þessu sinni vann Einar Hjalti Jensson glæstan sigur, hlaut 8,5 vinninga af 9 mögulegum og leyfði aðeins jafntefli gegn Ásgeiri P. Ásbjörnssyni sem varð annar. Í 3.-4. sæti urðu Jón Þorvaldsson og Sigurður Daði Sigfússon en Tómas Björnsson hafnaði í 5. sæti. Vígmóðir en vel saddir héldu keppendur síðan út í vornóttina, staðráðnir í því að eflast enn frekar á hvítum reitum og svörtum.
Jón Þ.
