Önnur umferð í Meistaramóti Hugins fór fram síðasta mánudagskvöld. Að þessu sinni markaðist umferðin dálítið af óvæntum forföllum keppenda á tveimur efstu borðum sem ekkert var hægt að gera við nema hliðra upp í salnum. Aðrir keppendur sáu um baráttuna. Eins og fyrstu umferð komu ein óvænt úrslit þegar Páll Þórsson lagði Ögmund Kristinsson á þriðja borði þótt hann stæði höllum fæti framan af. Lokahnykkurinn hjá Páli var svo laglegur. Hinir stigalausu Ingi Þór Hafdísarson og Magnús Sigurðsson náðu báðir hagstæðum úrslitum gegn stigamönnum og verða væntanlega báðir bráðum komnir í þann hóp.

Að lokinni annarri umferð eru fjórir skákmenn efstir og jafnir með 2 vinninga. Það eru Björgvin Víglundsson, Gauti Páll Jónsson, Páll Þórsson og Óskar Víkingur Davíðsson. Páll Þórsson situr yfir í þriðju umferð. Gauti Páll og Björgvin tefla á 1. borði og Óskar Víkingur fær Vignir Vatnar. Þriðja umferð fer fram á mánudagskvöldið 24 september og hefst kl. 19.30. Eftir þá umferð hljóta línur að fara að skýrast nokkuð. Áhorfendur eru velkomnir. Það er alltaf kaffi á könnunni í Huginsheimilinu og stundum eitthvað með því.

Úrslit 2. umferðar í chess-results:

Pörun 3. umerðar í chess-results: