Skákfélagið Goðinn tók þátt í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í Fjölnishöllinni í Grafarvogi um nýliðna helgi. Goðinn sendi eina sveit til keppni í 4. deild en lengi stóðu vonir til þess að það næðist að manna í tvö lið en of mikil forföll á lykilmönnum á síðustu dögum fyrir mót urðu til þess að aðeins eitt lið hóf keppni. Við höfðum þó 3 varamenn og ákveðið var við upphaf móts að skipta grimmt inn á neðri borðin, þannig að allir tefldu amk. tvær skákir af fjórum. Ákveðið var að leggja frekar áherslu á að leyfa þremur nýliðum að tefla svo þeir fái reynslu af því að tefla á Íslandsmóti, heldur en að stilla alltaf upp sterkast mögulega liðinu í öllum umferðunum. Það plan gekk ágætlega upp.
Við fengum c-lið Eyjamanna í fyrstu umferð. Við reiknuðum með erfiðum andstæðingum en sú varð ekki raunin. Við unnum öruggan 6-0 sigur og tókum þar með 1. sætið í deildinni með glæsibrag. Smári, Rúnar, Jakob, Hermann, Hilmar og Sighvatur tefldu gegn Eyjamönnum. Hilmar Freyr Birgisson var að tefla sína fyrstu kappskák í alvöru móti og landaði sigri.
Fyrir viðureignina við Dímon kom Hannibal Guðmundsson inn á 4. borð, Kristján Ingi Smárason kom inn á 5. borð og Adam Andrzej Plachta á 6. borð. Hermann, Hilmar og Sighvatur hvíldu í þessari umferð. Hannibal og Adam voru að tefla sínar fyrstu skákir á Íslandsmóti og Adam var að tefla sína fyrstu kappskák. Smári gerði jafntefli á 1. borði og Jakob Sævar einnig á 3. borði. Rúnar og Hannibal unnu sína andstæðinga, en Kristján og Adam töpuðu. Niðurstaðan varð því 3-3 jafntefli.
Goðinn – Skákfélag Sauðárkróks
Það var vitað fyrir viðureigninga við Skagfirðinga að þetta væri ein af úrslita viðureignunum í 4. deild og því mikilvægt að tapa helst ekki. Nú komu Hermann, Hilmar og Sighvatur aftur inn í liðið, en það dugði ekki til. Skagfirðingar unnu 5-1 og þar með má segja að draumar okkar um sigur í 4. deild væru úti. Smári og Jakob gerðu jafntefli en Rúnar, Hermann, Hilmar og Sighvatur töpuðu. Sighvatur var þó nálægt því að landa amk. jafntefli á neðsta borði.
Goðinn- – Taflfélag Garðabæjar – ung
Fyrir 4. umferð var Goðinn dottinn niður í 7. sætið og þvi alveg nauðsynlegt að vinna og það stórt. það gekk eftir þar sem við unnum 6-0 sigur á TG-ung. Það vantaði tvo öflugustu liðsmenn andstæðinganna og þeir sem eftir stóðu reyndust auðveld bráð fyrir okkar menn. Nú komu Kristján, Hilmar og Adam aftur inn í liðið, en Hermann, Hannibal og Sighvatur hvíldu. Smári, Rúnar, Jakob, Kristján, Hilmar og Adam unnu. Adam vann sína fyrstu kappskák og Hilmar vann sína aðra skák á Íslandsmóti.
Eftir þennan stóra sigur lagaðist staða Goðans til muna. Liðið er sem stendur í 5. sæti með 5 liðsstig og 16 vinninga. Skagfirðingar eru efstir með 8 liðsstig og 17,5 vinninga og eru ansi líklegir til þess að vinna deildina í mars 2022. Goðinn hefur alveg möguleika á því að ná öðru sætinu, en þá þarf allt að ganga upp í seinni hlutanum.
Staðan eftir fyrri hlutann.
Rk. | SNo | Team | Games | + | = | – | TB1 | TB2 | TB3 |
1 | 4 | Skákfélag Sauðárkróks | 4 | 4 | 0 | 0 | 8 | 17,5 | 0 |
2 | 2 | Taflfélag Reykjavíkur e-sveit | 4 | 3 | 0 | 1 | 6 | 17,5 | 0 |
3 | 14 | Taflfélag Reykjavíkur f-sveit | 4 | 3 | 0 | 1 | 6 | 15,0 | 0 |
4 | 7 | Skákdeild Breiðabliks c-sveit | 4 | 3 | 0 | 1 | 6 | 14,5 | 0 |
5 | 1 | Skákfélagið Goðinn | 4 | 2 | 1 | 1 | 5 | 16,0 | 0 |
6 | 3 | Skákdeild Breiðabliks d-sveit | 4 | 2 | 0 | 2 | 4 | 14,5 | 0 |
7 | 5 | Skákfélag Akureyrar d-sveit | 4 | 2 | 0 | 2 | 4 | 11,5 | 0 |
8 | 10 | Vinaskákfélagið b-sveit | 4 | 2 | 0 | 2 | 4 | 10,5 | 0 |
9 | 9 | Taflfélag Reykjavíkur g-sveit | 4 | 1 | 1 | 2 | 3 | 10,5 | 0 |
10 | 11 | Víkingaklúbburinn c-sveit | 3 | 1 | 0 | 2 | 3 | 10,5 | 0 |
11 | 6 | Dímon | 4 | 1 | 1 | 2 | 3 | 9,5 | 0 |
8 | Taflfélag Vestmannaeyja c-sveit | 4 | 1 | 1 | 2 | 3 | 9,5 | 0 | |
13 | 13 | Taflfélag Garðabæjar – ung | 3 | 1 | 0 | 2 | 3 | 9,5 | 0 |
14 | 15 | Skákdeild Fjölnis c-sveit | 3 | 0 | 0 | 3 | 1 | 7,5 | 0 |
15 | 12 | Skákfélag Grindavíkur | 3 | 0 | 0 | 3 | 1 | 6,0 | 0 |
Árangur einstaklinga.
Smári Sigurðsson. Smári sem tefldi á 1. borði fór taplaus í gegnum fyrri hlutann. Vann tvær skákir og gerði tvö jafntefli gegn stigahærri andstæðingum.
Rúnar Ísleifsson. Rúnar tefldi á 2. borði og vann þrjár skákir en tapaði einni.
Jakob Sævar Sigurðsson. Jakob tefldi á 3. borði og fór taplaus í gegnum mótið. Jakob vann tvær skákir og og gerði tvö jafntefli.
Hermann Aðalsteinsson. Tefldi tvær skákir á 4 borði. Hann vann aðra en tapaði hinni.
(Engin mynd fannst af Hermanni.)
Hannibal Guðmundsson tefldi eina skák á 4. borði og vann hana.
Hilmar Freyr Birgisson tefldi þrjár skákir á 5. borði. Hilmar vann tvær en tapaði einni.
Kristján Ingi Smárason tefldi tvær skákir á 5. borði. Kristján vann aðra en tapaði hinni.
Sighvatur Karlsson tefldi tvær skákir á 6. borði. Sighvatur vann aðra en tapaði hinni.
(Engin mynd fannst af Sighvati.)
Adam Andrzej Plachta tefldi tvær skákir á 6. borði. Adam vann aðra en tapaði hinni.
Allir skákmenn Goðans náðu amk. 50% árangri eða meira og mega því vel við una. Einnig var sérlega ánægjulegt að nýjir liðsmenn Goðans, þeir Hannibal Guðmundsson, Hilmar Freyr Birgisson og Adam Andrzej Plachta komu sterkir inn og náðu að landa vinningum fyrir félagið.
Síðari hlutinn í mars 2022.
Eins og áður segir er nánast útilokað að Goðinn nái að vinna 4. deildina í mars, en félagið á ágæta möguleika á því að ná öðru sætinu og þar með sæti í 3. deild að ári. Goðinn er 3 liðsstigum á eftir Skagfirðingum en bara einu liðsstigi á eftir sveitunum í 2-4 sæti. Líklegt er að Goðinn fái eitt af þeim liðum í 5. umferð í mars og vinnist þar sigur verður allt opið með framhaldið. Við náðum ekki að tefla fram okkar sterkasta liði núna þar sem Tómas Veigar, Sigurður Daníelsson og Ævar Ákason boðuðu forföll. Verði þeir með í seinni hlutanum er allt hægt.
Hermann Aðalsteinsson formaður Goðans.