Goðinn-Mátar sigraði Bolvíkinga

Goðinn-Mátar vann nauman sigur á Taflfélagi Bolungarvíkur í undanúrslitum hraðskákkeppni taflfélaga í gærkvöld. Lokatölur urðu 37-35 Goðanum-Mátum í vil. Eftir fyrri hlutann höfðu Goðmátar forystu, 20 vinninga gegn 16. Bolar unnu því seinni hlutann 19 – 17. Keppnin fór fram í húsnæði SÍ við Faxafen og var æsispennandi eins og ráða má af tölunum. Fyrir síðustu umferð voru Goðmátar tveimur vinningum yfir og höfðu Bolar hvítt á öllum borðum í lokarimmunni. Þrátt fyrir mikla baráttu á öllum borðum tókst Vestanmönnunum knáu ekki að saxa frekar á forskotið og niðurstaðan varð eins og áður segir.
 
Sveitirnar voru vel mannaðar. Bolvíkingar mættu með Jóhann Hjartarson, Braga Þorfinnsson, Jón Viktor Gunnarsson, Guðmund Gíslason, Halldór Grétar Einarsson og Guðna Stefán Pétursson.
Goðmátar mættu með Helga Áss Grétarsson, Þröst Þórhallsson, Einar Hjalta Jensson, Sigurð Daða Sigfússon, Ásgeir P. Ásbjörnsson, Arnar Þorsteinsson, Kristján Eðvarðsson, Þröst Árnason og Tómas Björnsson.
Sterkastir hjá Goðanum Mátum voru Þröstur Þórhalls með 8,5 af 12, Arnar Þorsteins með 6 af 9, Ásgeir P. með 6,5 af 12 og Helgi Áss, sem var nokkuð frá sínu besta að þessu sinni,  með 6 af 12.
Sterkastir Bolvíkinga voru Bragi Þorfinns og Guðmundur Gísla með 8,5 vinninga af 12, Jón Viktor með 8 af 12 og Jóhann Hjartarson sem aldrei þessu vant var ekki meðal allra efstu manna og hlaut 6 af 12.
Þar munaði því að Kristján Eðvarðs vann Jóhann tvisvar enda hefur Kristján lagt sig í framkróka eftir því að skilja og greina skákstíl þessa besta skákmanns okkar.Hefur hann þar notið aðstoðar ofurtölvu einnar en annars hvílir mikil leynd yfir því hvernig hann afrekaði þetta.
Bolvíkingar sáu um bruðerí í hléi og hljóta þakkir fyrir og eins er meistara Rúnari Berg þökkuð óaðfinnanleg dómgæsla og stigavarsla sem var til fyrirmyndar í hvívetna.
Pálmi R. Pétursson
 
Goðinn-Mátar eru þar með komnir í úrslit annað árið í röð og mæta Víkingaklúbbnum einnig annað árið í röð. Viðureignin fer fram sunnudaginn 8. september nk.