Undanúrslit Hraðskákkeppni taflfélaga fara fram í kvöld

Undanúrslit Hraðskákkeppni taflfélaga fara fram í kvöld. Þar mætast annars vegar Skákfélag Akureyrar og Víkingaklúbburinn og hins vegar Taflfélag Bolungarvíkur og Goðinn-Mátar. Viðureignirnar fara fram í húsnæði SÍ, Faxafeni 12 og hefjast kl. 20. Frá þessu er sagt á skák.is

Spennan er mikil fyrir viðureign Bola og Goð/Máta og úrslitin talinn ráðist á lokametrunum. Bæði liðin hafa tvo stórmeistara í sínum röðum. Fyrir Bolvíkinga tefla “gömlu” stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, sem nýlega sigraði á afar sterku minningarmóti Guðmundar Arnlaugssonar og Jón L. Árnason. Með Goð/Mátum tefla “ungu” stórmeistararnir Helgi Áss Grétarsson og Þröstur Þórhallsson.

Í liði Víkara eru auk þess alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson. Bolar eru sterkari á efri borðunum en Goð/Mátar hafa þéttari sveit. Skákspekingar meta líkurnar u.þ.b. 50-50 á milli þessu sterku klúbba.

Víkingaklúbburinn er að skákspekingum talinn eiga sigurinn vísan gegn Skákfélagi Akureyrar. Klúbburinn er núverandi Íslandsmeistari og hraðskákmeistari taflfélaga. Auk þess eru forföll í liði Akureyringa þar sem einn sterkasti hraðskákmeistari þeirra og landsins mun vera önnum kafinn við lögmannstörf og formaðurinn, Áskell Örn Kárason, verður staddur erlendis en hann er meðal þátttakenda á NM öldunga.

Í liði Víkingaklúbbsins eru meðal annars stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, tólffaldur Íslandsmeistari í skák og Stefán Kristjánsson og alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson. Akureyringar eru þó í góðri æfingu því fjórir liðsmanna þeirra, Stefán Bergsson, Mikael Jóhann Karlsson, Loftur Baldvinsson og Óskar Long Einarsson eru allir meðal keppenda á Meistaramóti Hellis.

Skákspekingar telja stórsigur Víkingaklúbbsins vísan.

Áhorfendur eru velkomnir í Faxafenið í kvöld til að horfa á spennandi skákir.