Umferð fór fram í kvöld í janúarmóti Hugins. Teflt er í tveim riðlum – austur og vestur og tefla sigurvegarar riðlana um sigurinn í mótinu 2. sætið o.s.frv.

Vestur

2010-10-06 15.29.28
Hjörleifur Halldórsson (fremst) er efstur í vestur riðli.

Vestanmenn eru fram úr hófi frumlegir menn og tefldu 7. umferð í kvöld í stað þeirrar 6.. Það var þó ekki vegna þess að þeir kunna ekki að telja, heldur buðu samgöngur upp á þessi frumlegheit – 7. umferðin hentaði betur þar sem þeir keppendur sem koma langt að reyna gjarnan að tefla fleiri en eina skák þegar þeir mæta til leiks.

Teflt var að Vöglum í Fnjóskadal þar sem Rúnar Ísleifsson (1799) skógarvörður ræður ríkjum.

2010-10-09 01.02.22
Hermann Aðalsteinsson stendur yfir skák Jóns Aðalsteins og Jakubs

Sigurbjörn Ásmundsson (1156) frá sveitabænum Stöng, sem er einhverstaðar uppi á hálendi, stöðvaði sigurgöngu Hermanns Aðalsteinssonar (1342) og gerði líklega út um sigurvonir foringjans sem fram til þessa hafði átt afar góðu gengi að fagna. Leiðtogi félagins afréð í framhaldinu að nafni sveitabæjarins skyldi breytt í Stöngin-inn og fornafni félagsmannsins í Sigurgrís. Vel má vera að Hermann hafi alls ekki ákveðið slíkt og fréttaritari sé að segja ósatt.

Önnur úrslit fyrir vestan voru hefðbundin.

Hjörleifur Halldórsson (1920) vermir efsta sætið með 4,5 vinninga eftir 6 skákir en Jakob Sævar Sigurðsson (1806) á inni frestaða skák og getur því náð honum að vinningum.

Einni umferð er ólokið í vestur riðli.

Austur

Guðmundur Hólmgeirsson (til vinstri) átti skák 6. umferðar
Guðmundur Hólmgeirsson (til vinstri) átti skák 6. umferðar. Tómas Veigar stendur yfir honum og Sigurði Gunnari sem endaði í 2. sæti.

Austanmenn trúa staðfastlega á debet og kredit, talnaraðir og stjörnuspá Morgunblaðis og tefldu bara umferð eins og til stóð skv. fyrirfram ákveðinni og birtri áætlun.

Reyndar eru austanmenn svo markvissir og þróttmiklir þegar kemur að skipulagi, utanumhaldi og framkvæmdum að þeir eru búnir að tefla allar skákirnar, utan eina sem þeir ákváðu að geyma svo vestanmönnum gefist færi á að ljúka sínum riðli á sama tíma.

Tómas Veigar Sigurðarson (1922) hefur sigrað í riðlinum með 6,5 vinninga af 7. Þá liggur fyrir að Sigurður Gunnar Daníelsson (1793) endar í 2. sæti með 6 vinninga, Smári Sigurðsson (1905) endar í 3. sæti með 5 vinninga og Hlynur Yamaha Viðarsson (1090) endar í 4. sæti með 4 vinninga.

Mjög óvænt úrslit urðu í 6. umferð í kvöld þegar Guðmundur Hólmgeirsson (0) gerði sér lítið fyrir og mátaði Ævar Ákason (1433) með glæsibrag og það þrátt fyrir að hafa tapað drottningunni!

Ævar Ákason og Sighvatur Karlsson (1298) eiga eftir að tefla innbyrðis í 7. umferð.