Það hefur aðeins farið framhjá fótfráustu mönnum heims að Skákþingi Hugins á norðursvæði lauk um liðna helgi með sigri skógarvarðarins Rúnars Ísleifssonar.
Rúnar hefur nú snúið til hefðbundinna starfa, sem í vetur felast aðallega í því að hafa upp á nestiskörfum sem hurfu á dularfullan hátt í skóginum síðasta sumar.
Rannsóknardeild skógarins segir málið afar dularfullt því margar körfur hverfi á hverjum degi yfir sumarmánuðina. Þá telur deildin jafnvel að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða, umfangið bendi til þess, en segir þó engar vísbendingar hafa fundist enn sem komið er sem staðfesti þær getgátur.
Að lokum segir deildin að afar sérkennilegt sé að ekkert hafi spurst til þjófanna í vetur, engu sé líkara en þeir hafi hreinlega lagst í hýði.