Önnur umferð hins firnasterka Nóa-Siríus móts (Gestamóts Hugins og Skákdeildar Breiðabliks) hefst kl. 19.00 í kvöld.
Helst ber til tíðinda að sjálfur Friðrik Ólafsson mætir til leiks og stýrir hvítu mönnunum gegn ungstirninu Óliver Aroni Jóhannessyni. Af öðrum viðureignum má nefna skák yngsta þátttakandans í landsliðsflokki 2016, Arnar Leós Jóhannssonar, gegn stigahæsta skákmanni mótsins, Jóhanni Hjartarsyni. Guðmundur Kjartansson lætur sverfa til stáls gegn Halldóri Grétari Einarssyni sem er stórhættulegur andstæðingur og sló í gegn á N-S mótinu í fyrra.
Stórmeistararnir Þröstur Þórhallsson og Lenka Ptácníková leiða saman hesta sína af alkunnri keppnishörku og Benedikt Jónasson, lærisveinn Bobby Fischers, gerir aðra atrennu í sömu viku að húninum harðdræga og lundanum ljúfa, Birni Þorfinnssyni. Líklegt verður að telja að Íslensk getspá sýni viðureigninni áhuga.
Einnig er vert að vekja sérstaka athygli á skák brellumeistaranna geðþekku, Ögmundar Kristinssonar og Jóns L. Árnasonar, en samanlagt má áætla að þessir tveir kappar hafi plata fleiri andstæðinga upp úr skónum í hraðskák og jarðsett fyrir opnum tjöldum en nokkrir tveir aðrir núlifandi Íslendingar. Ljóst er að þeir Jón og Ögmundur munu ekki þæfast um í steindauðu endatafli heldur efna til almenns ófriðar snemma tafls. Gestir eru velkomnir í Stúkuna á Kópavogsvelli.
Sjá pörun á chess-results.com: