Kórónuveirufaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á skákmenn um allan heim eins og alla aðra. Mjög fá mót hafa farið fram yfir borðið á árinu og það sama má segja um æfingar. Í staðinn hafa skákæfingarnar og skákmót farið fram á netinu. Líklega tefla allir skákmenn eitthvað á netinu og oftast á Chess.com eða Lichess. Gallinn við þessa vefi er að svo virist sem ekki sé hægt að setja upp mót þar sem allir tefla við alla með fáum keppendum, heldur bara sviss mót og þurfa þá að taka þátt nokkuð margir til að hægt sé að tefla meira en örfáar umferðir.
Þó er einn skákvefur þar sem hægt er að tefla allir við alla mót (round-robin) með frekar einföldum hætti. Sá vefur heitir Tornelo.com og hafa Þingeyskir skákmenn nýtt sér það vel að undanförnu. Nú þegar hafa verið haldnar um 30 skákæfingar eða skákmót á tornelo.com frá því í nóvember og hafa þær gengið vel og við höfum ekki orðið varir við nein vandamál við notkun á þeim vef. Þáttaka hefur verið góð því 7 upp í 14 skákmenn hafa teflt í einu, frá Siglufirði til Raufarhafnar.
Í Tornelo kerfinu er innbyggður skype hnappur sem allir keppendur á æfingunum tengjast saman og geta því séð alla og haft samskipti sín á milli. Skype tengingin er líka til að minnka möguleika á svindli.
Félagsmenn í Goðanum tefla tvisvar í viku á Tornelo.com, á mánudagskvöldum og fimmtudagskvöldum kl 19:30.
Ef þú býrð í Þingeyjarsýslu og hefur gaman af því að tefla, en hefur aldrei haft þig í það að tefla á skákmóti af því að þú heldur að þú getir ekkert og verði „jarðaður“ þá er tilvalið að hafa samband við Hermann í síma 8213187 og prófa að tefla með okkur á netinu og sjá hvernig gengur.
Við erum ekki neitt svakalega góðir !.