Hermann Aðalsteinsson mátti hafa sig allan við til að halda jöfnu gegn Kristjáni Inga.

Smári Sigurðsson og hinn ungi og stórefnilegi sonur hans Kristján Ingi Smárason, eru efstir og jafnir með 3,5 vinninga á Skákþingi Hugins á Húsavík sem nú stendur fyrir. Hermann Aðalsteinsson og Rúnar Ísleifsson koma næstir með 3 vinninga hvor, þegar 5 skákum er ólokið í mótinu. Mótið má skoða hér á chess-results

Smári, Hermann og Rúnar eiga eftir tvær skákir hver og úrslit gætu ráðist á morgun þegar Smári teflir við Rúnar og Kristján Inga. Takist Smára að vinna báðar skákirnar tryggir hann sér titilinn. Gangi það ekki eftir eiga Rúnar, Kristján Ingi og Hermann möguleika á titlinum. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær síðustu þrjár skákirnar fara fram.

Taflmennska hins 10 ára gamla Kristjáns Inga Smárasonar hefur vakið athygli á mótinu. Hann vann Sigurbjörn Ásmundsson og Ævar Ákason, hélt jöfnu með svörtu mönnunum gegn Hermanni, en varð að játa sig sigraðan gegn Rúnari Ísleifssyni. Kristján á einungis eftir að tefla við Smára Sigurðsson föður sinn og verður það ein af úrslita skákunum í mótinu.

Kristján Ingi fulltrúi Íslands á Norðurlandamótinu í skólaskák.

Helgina 14-18. febrúar fer fram Norðurlandamótið í skólaskák í Borgarnesi og hefur Kristján Ingi Smárason verið valin sem annar af tveimur fulltrúum Íslands í flokki 10 ára og yngri. Þar mun hann etja kappi við bestu skákmenn frá hinum Norðurlöndunum í hans aldursflokki og verður afar spennandi að fylgjast með gangi hans á mótinu. Fyrirfram er Kristján metinn sjötti sterkasti í sínum flokki samkvæmt skákstigum af 12 keppendum.

Kristján Ingi Smárason er, svo best er vitað, fyrsti Þingeyski skákmaðurinn til að taka þátt í Norðurlandamótinu í skólaskák og má búast við frekari afrekum hjá honum á skáksviðinu í framtíðinni.

Hér er hægt að skoða keppendalista Norðurlandsmótsins.

Hermann Aðalsteinsson mátti hafa sig allan við til að halda jöfnu gegn Kristjáni Inga.