Jakob Sævar Sigurðsson í lokaumferðinni

Seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga lauk um helgina.  Markmið okkar fyrir síðustu þrjár umferðirnar um að ná 2. sætinu og flytjast upp um deild, gengu ekki eftir og hlutskiptið varð 5. sætið, sem er sama sætið og Goðinn var í eftir fyrri 4 umferðirnar. Förföll lykilmanna vegna covid rétt fyrir upphaf 5. umferðar drógu verulega úr líkunum á því að fara upp og óvænt forföll aðalmanna eftir að mótið var hafið bættu ekki úr skák. Þrátt fyrir stóran sigur í 5. umferð sem kom Goðanum tímabundið í 3. sætið með flesta vinninga af öllum liðum í deildinni, dugði það skammt. Tvö óþarflega stór töp í lokaumferðunum gerðu endanlega út um allar vonir á að flytjast upp um deild eða að ná verðlaunasæti.

Hermann Aðalsteinsson og Hannibal Guðmundsson. Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Goðinn 5,5  Vinaskákfélagið-B sveit 0,5

Við reiknuðum ekki með því að fá andstæðing sem var fyrir neðan okkur í 5. umferð en pörun í deildó hefur oft verið öðruvísi en maður reiknaði með. Vinaskákfélagið gat ekki mannað nema á fjögur borð á meðan við vorum með fullskipað lið og unnum 5,5 – 0,5 sigur á þeim. Adrian og Hilmar fengu ekki andstæðinga á tvö neðstu borðin og unnu því án taflmennsku, Jakob, Hermann og Kristján unnu sínar skákir og Hannibal gerði jafntefli.

Jakob Sævar Sigurðsson og Hermann Aðalsteinsson. Mynd Hallfríður Sigurðardóttir

Goðinn 2  Taflfélag Reykjavíkur E-sveit 4

Einn af aðalmönnum okkar forfallaðist óvænt og sama hvað var reynt fannst enginn í hans stað og við neyddumst því til að hafa neðsta borðið tómt í þessari umferð. Ljóst var að það var á brattann að sækja og sigur vonirnar minni en ella þegar ein skák er töpuð fyrir fram. Við þurftum á sigri að halda í þessari viðureign ef við ætluðum okkur að fara upp og því mjög dýrt að hafa tómt borð. Jakob Sævar vann sína skák á 1-borði, Hermann gerði jafntefli á 2. borði og Adrian Benedicto, sem var að tefla sína fyrstu skák fyrir Goðann á Íslandsmót, gerði jafntefli á 5. borði. Hilmar og Kristján töpuðu sínum skákum. Niðurstaðan varð því 2-4 tap og vonir okkar um 2. sætið ekki lengur til staðar. Vonir okkar um 3. sætið voru þó mögulegar með sigri í lokaumferðinni og hagstæðum úrslitum í öðrum viðureignum frá okkar sjónarhorni.

Adrian Beneditco til hægri. Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir

Goðinn 1 – Breiðablik-C 5

Segja má að allt hafi gengið á afturfótunum í aðdraganda síðustu umferðarinnar á sunnudeginum. Einn aðalmaðurinn var óvænt kallaður í vinnu kl 13:00 og tefldi hann til kl 12:00 og gaf síðan skákina. Annar aðalmaður átti í erfiðleikum með að mæta á skákstað. Hermann fór að leita að honum en fann ekki og rétt náði að komast aftur á skákstað áður en 30 mín voru liðnar. Aðra umferðina í röð vorum við því með neðsta borðið tómt og það er mjög dýrt í svona keppni. Jakob Sævar og Kristján gerðu jafntefli, en Hermann, Hannibal og Hilmar töpuðu sínum skákum. Niðurstaðan varð því 1-5 tap og 5 sætið staðreynd. Þó svo að sigur hefði unnist í lokaumferðinni hefði það ekki fært okkur ofar en í 4. sætið vegna óhagstæðra úrslita frá okkar sjónarhorni í öðrum viðureignum.

Jakob Sævar Sigurðsson í lokaumferðinni
Lokastaðan í 4. deild
Rk. SNo Team Games   +   =   –  TB1  TB2  TB3
1 4 Skákfélag Sauðárkróks 7 7 0 0 14 30,5 0
2 2 Taflfélag Reykjavíkur e-sveit 7 5 0 2 10 27,5 0
3 7 Skákdeild Breiðabliks c-sveit 7 5 0 2 10 27,0 0
4 14 Taflfélag Reykjavíkur f-sveit 7 5 0 2 10 24,0 0
5 1 Skákfélagið Goðinn 7 3 1 3 7 24,5 0
6 11 Víkingaklúbburinn c-sveit 6 3 0 3 7 20,0 0
7 3 Skákdeild Breiðabliks d-sveit 7 3 0 4 6 24,0 0
8 6 Dímon 6 2 1 3 6 19,0 0
9 8 Taflfélag Vestmannaeyja c-sveit 6 2 1 3 6 18,0 1
10 9 Taflfélag Reykjavíkur g-sveit 6 2 1 3 6 18,0 1
11 10 Vinaskákfélagið b-sveit 7 3 0 4 6 15,0 0
12 5 Skákfélag Akureyrar d-sveit 4 2 0 2 4 11,5 0
13 12 Skákfélag Grindavíkur 6 1 0 5 3 15,5 0
14 13 Taflfélag Garðabæjar – ung 3 1 0 2 3 9,5 0
15 15 Skákdeild Fjölnis c-sveit 6 0 0 6 1 11,0 0
  1. Jakob Sævar Sigurðsson var traustur að vanda og fór taplaus i gegnum mótið. Jakob vann tvær skákir og gerði eitt jafntefli.
  2. Hermann Aðalsteinsson vann eina skák, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák.
  3. Hannibal Guðmundsson tefldi tvær skákir á 3. borði. Hannibal gerði jafntefli og tapaði einni skák
  4. Kristján Ingi Smárason tefldi 3 skákir á 4 og 3. borði. Kristján vann eina skák, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák.
  5. Hilmar Freyr Birgisson tefldi 3 skákir. Hilmar fékk einn vinning en tapaði tveim skákum.
  6. Adrian Benedicto tefldi 2 skákir og fékk einn vinning og gerði eitt jafntefli.

Þrátt fyrir vandamál við mönnun á sveit Goðans í þessum seinni hluta má segja að það hafi verið mjög góð niðurstaða að halda sveitinni í 5. sæti út mótið og falla ekki neðar en það. Að fá 24,5 vinninga er alls ekki slæmur árangur. Sennilega hafa flest öll liðin í mótinu orðið fyrir skakkaföllum út af covid en ég efast um að nokkurt annað lið hafi verið án þriggja sterkustu skákmannana eins og Goðinn.

Skákfélag Sauðárkróks vann 4. deildina mjög örugglega enda með mjög þétta sveit og sluppu að mestu við forföll. Við Goðamenn óskum þeim til hamingju með glæsilegan sigur.

Markmið Goðans verða auðvitað áfram þau sömu, að vinna sig upp í 3. deildina. En þau markmið verða að bíða næsta tímabils.

Mótið á chess-results.