Úrslitakeppni Janúarmóts Hugins lýkur annað kvöld þegar Smári Sigurðsson (enskukennari við FSH) og Rúnar Ísleifsson (skógarvörður í Vaglaskógi) tefla síðari einvígisskákina um sigur á mótinu í Framsýnarsalnum á Húsavík. Skákin hefst kl 19:30 og eru áhorfendur velkomnir til að fylgjast með.
Fyrri skák þeirra félaga fór fram sl. sunnudag á Vöglum og endaði hún með jafntefli. Verði jafntefli líka í seinni skákinni verða tefdar tvær hraðskákir og svo bráðabani verði enn jafnt, til að skera úr um sigur í mótinu.
Allnokkrar líkur eru á því að einvígið fari í bráðabana þar sem þeir félagar hafa alltaf gert jafntefli þegar þeir hafa mæst við skákborðið fram að þessu
Á morgun er Íslenski skákdagurinn, afmælisdagur Friðriks Ólafssonar fyrsta stórmeistara Íslendinga og því vel við hæfi að tveir af bestu skákmönnum Þingeyinga tefli til úrslita á Janúarmótinu.
Þegar úrslit verða ljós verður haldinn stuttur félagsfundur, þar sem skákdagskrá vetrarins verður rædd.