Næst síðasta hraðkvöld vetrarins hjá Huginn fór fram síðasta mánudag 8. maí. 11 keppendur mættu til leiks á einu af sterkari hraðkvöldum vetrarins. Úrslitin voru nokkuð óvænt en Vigfús Ó. Vigfússon sigraði með 7v af átta mögulegum. Tapið kom strax í annarri umferð þegar hann tapaði örugglega fyrir Vigni Vatnari Stefánssyni. Síðan fór að ganga betur og í spennandi skák við Örn Leó Jóhannsson þar sem Vigfús stóð betur í lokin var erfitt að tefla til vinnings, með báðar drottningarnar á borðinu og á þeim litla tíma sem eftir var og Örn Leó hafði margar skákir meðan kóngur Vigfúsar varð að flýja í skjól yfir endilangt borðið. Hins vegar hvíldi mátflétta á kónginum hjá Erni Leó og með því að halda henni meira og minna vakandi í gegnum flestar skákirnar var alltaf von til þess að hún myndi gleymast í hita leiksins. Þegar það gerðist þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Úrslitin réðust svo í næst síðustu umferð í skák Vigfúsar við Atla Jóhann Leósson. Í lokin var komið jafnteflislegt endatafl með hrókum og mislitum biskupum. Í barningnum í tímahrakinu í lokin féll Atli Jóhann í lævísa mátgildru en ef hann hefði varast hana hefði sigurinn verið honum næsta vís. Þegar upp var staðið þurfti Vigfús á þessum sigri að halda því með jafntefli hefði hann og Örn Leó verið jafnir að vinningum og Örn Leó unnið á stigum eins sést ef mótstaflan er skoðuð í chess-results. Að þessu sinni virtist skákstjórnin á Reykjavíkurskákmótinu vera fyrirtaks undirbúningur fyrir þetta hraðkvöld enda þurfa skákstjórar að fylgjast með meira en bara einni skák.

Að þessu sinni var Örn Leó Jóhannsson annar með 6,5v en Örn Leó hefur verið manna sigursælastur á þessum hraðkvöldum í vetur og þriðji var Eiríkur Björnsson með 6v.

 

Eftir nokkurt hlé fékk Vigfús að draga í happdrættinu. Að þessu sinni var ekki hægt að draga Björgvin þannig að Jakob Alexander Petersen var dreginn í staðinn. Vigfús valdi Saffran en Jakob Alexander valdi  Dominos. Næsta skákkvöld verður hraðkvöld mánudaginn 29. maí.

Lokastaðan á hraðkvöldinu:

  1. Vigfús Ó. Vigfússon, 7v/8
  2. Örn Leó Jóhannsson, 6,5v
  3. Eiríkur Björnsson, 6v
  4. Vignir Vatnar Stefánsson, 5,5v
  5. Atli Jóhann Leósson, 4,5v
  6. Jakob Alexander Petersen, 4,5v
  7. Sigurður Freyr Jónatansson, 4,5v
  8. Gunnar Nikulásson, 3,5v
  9. Hörður Jónasson, 3v
  10. Einar Tryggvi Petersen, 2v
  11. Hjálmar Sigurvaldason, 1v

Úrslitin í chess-results: