Davíð Kjartansson (2356) sigraði á Meistaramóti Hugins sem lauk síðastliðið mánudagskvöldi. Davíð hlaut 6½ vinning í 7 skákum og var ótvírætt bestur á mótinu og vel að sigrinum kominn. Taflmennska hans var heilt yfir heildstæð og mistök fá þannig að hann gaf sjaldan höggstað á sér. Jafnir í öðru og þriðja sæti voru  Sævar Bjarnason (2093) og Jón Trausti Harðarson (2100) með 5v og áttu þeir báðir ágætt mót og tóku góða spretti inn á milli. Í lokaumferðinni lagði Davíð Björgvin Víglundsson að velli en Björgvin þurfti á sigri að halda til að ná Davíð að vinningum. Sævar vann Mikael Jóhann Karlsson sem eins og Björgvin gat náð Davíð ef lokaumferðin hefði teflst honum í hag. Jón Trausti vann Dawid Kolka í lokaumferðinni sem var í baráttu um titilinn skákmeistari Hugins, þar sem enginn af efstu mönnum er félagsmaður í Huginn. Það notfærðu sér Óskar Víkingur Davíðsson og Heimir Páll Ragnarsson og náðu Dawid að vinningum með góðum sigrum í lokaumferðinni. Það verða því þessir þrír ungu Huginsmenn sem þurfa að heyja aukakeppni um titillinn. Sú keppni fer fram næstkomandi laugardag 24. september og hefst kl. 15.30. Teflt verður í húsnæði SI í Faxafeni. Fyrst verða tefldar atskákir með umhugsunartímanum 15.mínútur + 5 sekúndur á leik. Ef það dugar ekki til verður hraðskák með tímanum 4 mínútur + 2 sekúndur á leik og ef það nægir ekki verður bráðabani.

Lokastöðu mótsins má nálgast á Chess-Results:

Hverjir hljóta aukaverðlaun er ekki hægt að birta fyrr en að lokinni keppninni um skákmeistara Hugins þar sem hún hefur nokkur áhrif á skiptingu þeirra.

Búið er að slá inn skákir 7. umferðar og hægt að velja þá skák sem þið viljið skoða með því að smella á flettiglugann fyrir ofan stöðumyndina. Ef menn taka eftir villum í innslætti skáka væri gott að frétta af því. Allar skrárnar með skákum meistaramótsins verða sameinaðar og birtar með frétt um aukaverðlaunin sem kemur um næstu helgi.