Aukakeppnin um titilinn skákmeistari Hugins fór fram sl. laugardag. Þar tefldu Dawid Kolka, Heimir Páll Ragnarsson og Óskar Víkingur Davíðsson um titilinn en þeir voru allir jafnir á meistaramótinu með 4v efstir Huginsmanna. Tefld var tvöföld umferð með umhugsunartímanum 15 mínútur á skák + 5 sekúndur á leik. Dawid tók strax í fyrri hlutanum forystu með því að vinna báðar skákirnar. Fyrri skákin við Heimi Pál Ragnarsson var samt eina skákin sem hann lenti í einhverjum erfiðleikum. Þegar leið á skákina og tíminn minnkaði þá var Dawid fljótari og öruggari að leika og innbyrti fyrir rest mikilvægan vinning. Í seinni hlutanum var þetta engin spurning og Dawid tryggði sér öruggan og verðskuldaðan sigur í aukakeppninni með 3,5v af fjórum mögulegum. Dawid Kolka er því skákmeistari Hugins 2016 á suðursvæði og í annað sinn sem hann vinnur þennan titil því á árinu 2014 varð hann einnig skákmeistari Hugins.

Jafnteflið í aukakeppninni gerði Dawid við Óskar Víking Davíðsson. Það má með sanni segja að þeir hafi dottið um jafnteflið. Dawid hafði lengi skákarinnar staðið til vinnings en þegar tíminn var orðinn lítill og þeir búnar að tefla nokkurn tíma á viðbótartímanum þá verða uppskipti og allt í einu kemur upp staðan á stöðumyndinn hér fyrir neðan. Óskar var að leika c4 og bauð jafntefli um leið, áður en Dawid uppgötvaði að hægt var að vinna skákina með því leika b peðinu ofan í tvöfalda peðsvaldið á b5 og mynda þannig nýtt frípeð langt frá valdaða frípeðinu sem tryggir öruggan sigur. Jafntefli var því niðurstaðan í skákinni en það skipti ekki máli þegar upp var staðið.

Búið er finna út hverjir unnu til aukaverðlauna á Meistarmóti Hugins en það eru:

  • Skákmeistari Hugins, kr. 10.000: Dawid Kolka
  • Undir 2000, bók hjá Skákbókasölunni kr. 5.000: Heimir Páll Ragnarsson
  • Undir 1800, bók hjá Skákbókasölunni kr.  5.000: Óskar Víkingur Davíðsson
  • Undir 1600  bók hjá Skákbókasölunni kr. 5.000: Héðinn Briem.
  • Sigalausir, bók hjá Skákbókasölunni kr. 5.000: Jóhann Bernhard Jóhannsson

Unglingaverðlaun:

  1. Bók hjá Skákbókasölunni kr. 5.000: Alexander Oliver Mai
  2. Bók hjá Skákbókasölunnii kr. 4.000: Aron Þór Mai
  3. Bók hjá Skákbókasölunni kr. 4.000: Stephan Briem

Vinningshafar velja sér bók við hæfi hjá Skákbókasölunni.

Búið er sameina allar færslur á innslætti skáka þannig að allar umferðir eru komnar saman í eina skrá. Hægt er að velja þá skák sem þið viljið skoða með því að smella á flettiglugann fyrir ofan stöðumyndina.