Það er fjölmennt á toppi Nóa Síríus mótsins – Gestamóti Hugins og Breiðabliks. Eftir þrjár umferðir eru Guðmundur Gíslason (2307), Stefán Kristjánsson (2471), Guðmundur Kjartansson (2456) og Þorsteinn Þorsteinsson (2253) efstir og jafnir með 2½ vinning. Ellefu skákmenn hafa 2 vinninga og spennan því magnþrungin þegar mótið er hálfnað.
Þorsteinn gerði sér lítið fyrir og vann Karl Þorsteins (2449) eftir miklar flækjur í spennandi skák. Guðmundur Kjartansson vann góðan sigur á Ingvari Þór Jóhannessyni (2369). Gríðarlega mikilvæg úrslit fyrir Guðmund eftir tapið gegn Vigni Vatnari á Skákþingi Reykjavíkur degi áður. Stefán Kristjánsson vann góðan sigur á Björgvini Jónssyni eftir háþrýsting á miðborðinu þar sem eitthvað varð undan að láta.
Dagur Ragnarsson (2219) er í góðu þessu formi um þessar mundir og nær bæði góðum úrslitum á Gestamótinu og Skákþinginu. Í gær gerði hann jafntefli við stórmeistarann Þröst Þórhallsson (2423). Halldór Brynjar Halldórsson (2209) vann Stefán Bergsson (2023) í uppgjöri akureysku goðsagnanna.
Fjórða umferð fer fram á fimmtudagskvöld. Þá teflir Þorsteinn við Stefán og Gummarnir (Kjartansson og Gíslason) skella saman skoltum á öðru borði.
Enn fjölmennara á toppnum í b-flokki!
Ekki er spennan minni í b-flokki. Þar eru sjö skákmenn efstir og jafnir með 2½ vinning. Það er Dagur Andri Friðgeirsson (1858), Dawid Kolka (1897), Bárður Örn Birkisson (1954), Guðmundur Kristinn Lee (1747), Snorri Þór Sigurðsson (1845), Hrund Hauksdóttir (1777) og Agnar Tómas Möller (1894).
Stephan Briem (1360) heldur áfram að gera frábæra hluti og gerði í gær jafntefli við stigahæsta keppandann, Harald Baldursson (1974).
[dt_divider style=”thick” /]