Félagaskiptaglugginn fyrir Íslandsmót skákfélaga rann út á miðnætti sl. nótt. Eins og oft áður var talsvert um félagaskipti frá því að Íslandsmótinu lauk í mars sl. í aðdraganda gluggans. Það fjölgaði verulega í sumum skákfélögum en í öðrum fækkaði eins og gengur. Goðinn kom út í plús þar sem 6 skákmenn gengu í félagið en enginn úr því. Vinaskákfélagið og KR eru sennilega þau félög sem mest hefur fjölgað í frá mars sl.

Goðinn 11 stærsta virka skákfélag landsins

Stærstu skákfélög landsins, sem hafa staðfest þáttöku á Íslandsmótinu 2022-3 eru Taflfélag Garðabæjar og Taflfélag Reykjavíkur með 494 félagsmenn hvort félag. Nokkuð langt er í næstu félög, en 6 félög ná þó meira en 100 manns. Goðinn er með 67 félagsmenn sem gerir félagið að 11 stærsta skákfélaginu sem hefur skráð lið til keppni á Íslandsmóti Skákfélaga. Haukar eru þó með 91 félagsmenn skráða en hafa enn sem komið er ekki skráð lið til keppni.

Taflfélag Garðarbæjar   494
Taflfélag Reykjavíkur     494
Breiðablik                     159
Fjölnir                          125
Vinaskákfélagið             121
KR                                118
Skákfélag Akureyrar       103
TV                                101
Víkingaklúbburinn            99
Selfoss (SSON)               86
Goðinn                           67
Hrókar alls fagnaðar        47
Sauðárkrókur                  28
Austurland (SAUST)         16
Skákgengið                     15
Grindavík                          9

Nokkur félög, sem hafa verið misjafnlega virk undanfarin ár, hafa ekki skráð sig til þátttöku á Íslandsmótinu í ár eru td. SFÍ (23) Siglufjörður (17) Taflfélag Akraness (11) og Dímon (2). Þess ber þó að geta að skráingarfrestur vegna þátttöku í 4 deild rennur ekki út fyrr en 6. október og því enn von á að einhver lið bætist við.

Lista yfir öll Íslensk skákfélög má skoða hér.

Goðinn skráði tvö lið til keppni í 4. deild í ár. Í 4 deild eru skráð 16 lið alls til keppni og gæti þeim fjölgað fram til 6. október. Það má búast við harðri baráttu um tvö efstu sætin í deildinni eins og vanalega.

Ingi Tandri og Kári Arnór nýir félagsmenn Goðans

Ingi Tandri Traustason

 

Ingi Tandri Traustason (1917) skipti úr Haukum í Goðann í fyrradag. Ingi Tandri er öflugur skákmaður og mikill fengur að fá hann í félagið. Hann varð skákmeistari Hafnarfjarðar 2008 og svo varð Ingi Tandri evrópumeistari í Kotru árið 2017

 

 

Kári Arnór Kárason

Kári Arnór Kárason (1960 ísl stig) er einnig kominn í Goðann frá SA en hann er nýlega fluttur í Þingeyjarsveit. Kári Arnór var formaður Taflfélags Húsavíkur sáluga í nokkur ár enda innfæddur Þingeyingur. Kári hefur lítið teflt undanfarin ár.

 

 

Auk þeirra Inga Tandra og Kára komu inn á tímabilinu fjórir aðrir stiglausir og félagslausir skákmenn. Ekki er ólíklegt að einhverjir stiglausir og félagslausir skákmenn bætist við á næstu dögum, enda meiga félagslausir og stiglausir ganga í það félag sem þeim sýnist þegar þeim sýnist (næstum því).