Gestamotid_001_6-umfÞað var hart barist í fimmtu og næstsíðustu umferð Nóa Síríus-mótsins – Gestamóts Hugins og Breiðabliks –  í gærkvöld og fjórar skákir tefldar fram yfir miðnættið. Fyrir lokaumferðina er staðan þannig að sjö keppendur hafa tækifæri á að hampa sigri á mótinu.

Guðmundur Kjartansson (2456), Halldór Brynjar Halldórsson (2209) og Magnús Örn Úlfarsson (2375) eru efstir og jafnir með 4 vinninga.

Halldór Brynjar þurfti minnst að hafa fyrir hlutunum í gær. Stjörnulögfræðingurinn vann Björn Þorfinnsson (2418) fremur áreynslulaust en stjörnublaðamaðurinn tefldi byrjunina óvenju ráðleysislega og mátti sætta sig við tap í aðeins 24 leikjum. Talið er að stigvaxandi væringar milli stétta lögfræðinga og blaðamanna á Íslandi hafi sett sitt mark á viðureign þessara heiðursmanna. Að sögn vitna sló í brýnu með þeim á Gestamotid_010_6-umfskákstað rétt áður en sest var að tafli.  Þar vændi Björn Halldór um tilgerð í klæðaburði og óhóflega notkun á langdrægum rakspíra til að fipa andstæðinginn við skákborðið og kallaði löðurmannlega atrennu að sterkari andstæðingi. Klækjarefurinn Halldór sér hins vegar leik á borði með gagnárás. Hann yggldi sig framan í Björn með þessari skírskotun í orð Skarphéðins í Njálu: „Hefir þú, Björn, lítt fylgst með tískustraumum eða sótt mannamót og mun þér kringra að hafa ljósaverk að búi þínu í Garðabæ í fásinninu. Sæmra væri þér að stanga úr tönnum þér rassgarnarendann merarinnar, er þú ást, áður þú reiðst til þessarar viðureignar en að rífa hér kjaft við þér virðulegri mann.“ Setti Björn fölan við þessa ósvífni og fór því sem fór. Fróðlegt verður að fylgjast með næstu viðureignum snillinganna.

Gestamotid_002_6-umfMagnús Örn atti kappi við Dag Ragnarsson (2219), skákin leystist upp í miðtafl þar sem hvor keppandi hafði hrók og drottingu, auk slatta af peðum, en með betur stæða menn landaði Magnús sigri upp úr miðnætti. Enginn teflir lengri skákir á mótinu enprófessorinn sem virðist vera í býsna góðu formi þrátt fyrir litla taflmennsku síðustu misseri. Líkamsþol Magnúsar er öflugt vopn en þeir kollegar hjá HÍ, Magnús Örn, Helgi Áss og Snorri Þór, hafa vakið athygli langt út fyrir háskólalóðina fyrir framúrskarandi líkamlegt atgervi og meðvitaða reisn í framgöngu.

Lengsta skák kvöldsins var hins vegar á milli Guðmundar Kjartanssonar og Stefáns Kristjánssonar. Þar vann Guðmundur peð en öll peðin voru á sama kanti. Guðmundur reyndi allt hvað af tók að vinna með hróki + riddara gegn hróki en stórmeistarinn hélt því auðveldlega.

Stefán er í 4.-7. sæti með 3½ vinning ásamt Guðmundi Gíslason (2307), sem notfærði sér byrjunarmistök Hrafns Loftssonar (2164) til sigurs, Þorsteini Þorsteinssyni (2253) og Halldóri Grétari Einarssyni (2205) sem vann Sigurbjörn Björnsson (2300) í mjög æsilegri og spennandi skák eftir skiptamunarfórn. Allir þessir sjö skákmenn geta sigrað á mótinu.

Gestamotid_011_6-umfÖrn Leó Jóhannsson (2157) hefur bætt sig jafnt og þétt sem skákmann síðustu misseri og vann Karl Þorsteins (2449) í gær, sem verður að teljast mikið afrek enda er Karl afrenndur að skákafli þó að nokkuð skorti á leikæfinguna. Þá bar það einnig til tíðinda að Þorvarður Ólafsson hrifsaði sigurinn af Guðlaugu Þorsteinsdóttur í blálokin eftir að hafa verið þremur peðum undir. Þótti Þorvarði leitt að svona fór enda annálað prúðmenni og drengur góður.

Í lokaumferðinni, sem fram fer nk. fimmtudagskvöld, mætast: Guðmundur Kjartansson (4) – Halldór Brynjar (4), Guðmundur Gíslason (3½) – Magnús Örn (4), Halldór Grétar (3½) – Þorsteinn (3½) og Björn (3) – Stefán (3½).

 

B-flokkur

Í B-flokki er Dawid Kolka (1897), sem vann Dag Andra Friðgeirsson (1858), efstur með 4½ vinning. Bárður Örn Birkisson (1954), sem vann tvíburabróður sinn, Björn Hólm (1962) og Snorri Þór Sigurðsson (1845) sem knésetti Hrund Hauksdóttur (1777) eru í 2.-3. sæti með 4 vinninga. Dawid teflir við við Bárð Örn í lokaumferðinni en Snorri Þór mætir Degi Andra.

[dt_divider style=”thick” /]