Gestamotid_004_lokaNóa Siríus mótinu, gestamóti Hugins og Skákdeildar Breiðabliks 2016, lauk í gærkvöld. Í A-flokki sigraði alþjóðlegi meistarinn víðförli, Guðmundur Kjartansson, með 5 vinninga af 6. Í öðru til þriðja sæti með 4,5 vinninga urðu prófessorinn skeleggi, Magnús Örn Úlfarsson, og tæknifrömuðurinn að vestan, Halldór Grétar Einarsson, sem bætti við sig 40 elóskákstigum. Þá er óupptalin uppskera Vignis Vatnars Stefánssonar sem nældi sér í 41 skákstig.

Guðmundur hafði hvítt í skák sinni við stjörnulögfræðinginn Halldór Brynjar Halldórsson og kom upp Sikileyjarvörn. Guðmundur náði öruggri fótfestu á yfirvölduðum reit á d5 og kom sér þar fyrir eins og púkinn á fjósbitanum, guðræknum stjörnulögfræðingnum til sárrar skapraunar. Þrátt fyrir illt auga Halldórs og öflugar særingarþulur, kryddaðar hörmulegum lagatexta, varð Guðmundi ekki haggað. Halldór laut því í lægra haldið í þetta sinn en getur borið höfuðið hátt eftir góða frammistöðu á mótinu.

Gríðarlegur baráttuandi einkenndi skák Magnúsar Arnar og snarfarans úr Bolungarvík. Guðmundar Gíslasonar. Þessir atgervismenn til sálar og líkama gerðu allt til knýja fram sigur, höfnuðu jafnteflisleiðum þótt þeir væru í taphættu og á nippinu. Svo mikil var einbeitingin að þeir brögðuð hvorki vott né þurrt þetta kvöldið og stóðu ekki upp frá borðum fyrr en tilneyddir, sársoltnir og með sinn hálfa vinninginn hvor í rassvasanum.

Gestamotid_002_lokaÍ skák Halldórs Grétars og hins grjótharða Þorsteins Þorteinssonar kom upp bogo-indversk vörn. StoneStone, sem gekk ekki heill til viðureignar þetta kvöld, yfirsást snjall millileikur með riddara á b4. Halldór nýtti sér ónákvæmnina, þandi út brjóskassann og fnæsti til framrásar á miðborðinu. Varð Þorsteini að orði að það mætti ekki rétta þessum vestfirska galdramanni litla fingurinn.

Í fjórðu toppviðureign kvöldsins áttust við snillingarnir Björn Þorfinnsson, alþjóðlegur meistari, og stórmeistarinn Stefán Kristjánsson sem beitti kóng-indverskri vörn. Framan af þreifuðu þeir hvor á öðrum eins og japanskir súmó-glímumenn en svo fór að Björn náði að loka drottingu Stefáns inni og varp öndinni léttar með sigurglott á vör. Honum svegldist þó allhressilega á kaffinu og Nóa-konfektinu þegar hin svarta hátign hófst Gestamotid_003_lokaskyndilega á loft af sjálfsdáðum eins og fyrir vúdúgaldur og sveif út úr prísundinni. Upptendraður af kraftaverkinu færðist Stefán í aukana og þjarmaði allógurlega að Birni sem varðist þó fimlega, enda afkomandi margra kappanna í Víðistaðabardaga í Skagafirði, einkum þó þeirra sem lifðu bardagann af.

Af óvæntum úrslitum í A-flokki má helst nefna sigur Arnar Leós Jóhannssonar sem lagði Andra Á. Grétarsson með svörtu. Örn Leó er á mikilli siglingu þessar vikurnar, var taplaus í mótinu og hækkar 45 elóstig.

B-flokkur

Í B-flokki varð hlutskarpastur prófessorinn og hugleiðslumeistarinn geðþekki, Snorri Þór Sigurðsson, með 5 vinninga. Jafn Snorra Þór en lægri að stigum eftir útreikninga varð ungstirnið knáa Dawid Kolka. Snorri Þór lagði Dag Andra Friðgeirsson en Dawid gerði jafntefli við Bárð Örn Birkisson. Snorri Þór hækkar um 37 stig fyrir frammistöðuna en Dawid um 38 stig. Báðir unnu sér keppnisrétt í A-flokki að ári. Í þriðju toppviðureign kvöldsins í B-flokki sigraði Birgir Karl Sigurðsson Jón Eggert Hallsson og náði fyrir bragðið þriðja sæti í mótinu.

Nokkrir ungir og upprennandi skákmenn bættu við sig heilli hrúgu af alþjóðlegum skákstigum. Það ber hæst Stephan Briem sem hesthúsaði 57 stig, Sindra Snæ Kristófersson sem týndi upp 40 stig og Stefán Orra Sigurðsson sem bætti 38 stigum í safnið.