Guðmundur Kjartansson (2456), sem vann nafna sinn Gíslason (2307) í 4. umferð í gær, er efstur með 3½ vinning á Nóa Síríus mótinu – Gestamóti Hugins og Breiðabliks. Fimm skákmenn koma í humátt á eftir stórmeistaraefninu með 3 vinninga. Það eru þeir Dagur Ragnarsson (2219), sem er einnig í toppbaráttunni á Skákþingi Reykjavíkur, stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471), Þorsteinn Þorsteinnsson (2253), Halldór Brynjar Halldórsson (2209), Magnús Örn Úlfarsson (2375) og Björn Þorfinnsson (2418).

Þorsteinn og Stefán gerðu jafntefli í hörkuskák þar sem Þorsteinn kom Stefáni í opna skjöldu með hinu glaðbeitta Hornarfjarðarafbrigði gegn nimzo-indverskri vörn. Björn sveið félaga sinn í TR, Benedikt Jónasson (2203), í endatafli og varð Benna að orði eftir skákina: “Og þú líka, bróðir minn Brútus.” Magnús Örn (2375) vann Lenku í maraþonskák. Dagur, sem virðist vera í feiknaformi um þessar mundir, lagði Jón Kristinsson (2240). Halldór Brynjar þurfti lítið að hafa fyrir sínum sigri þar sem andstæðingur hans gaf skákina án taflmennsku vegna veikinda.

Vignir Vatnar Stefánsson (2071), gerði sér lítið fyrir og vann hinn þrautreynda skákmann Björgvin Víglundsson (2203) með mjög góðri úrvinnslu.

Fimmta og næstsíðasta umferð fer fram á fimmtudaginn. Þá mætast Stefán og Guðmundur. Þeir mætast einnig lokaumferð Skákþingsins á sunnudag og þá með skiptum litum! Á öðru borði teflir akureyska goðsögnin og stjörnulögfræðingurinn Halldór Brynjar við klækjarefinn og stjörnublaðamanninn Björn Þorfinsson. Hinn geðþekki professor, Magnús Örn, fær það erfiða hlutskipti að tefla við ungstirnið Dag Ragnarsson. Þorsteinn Þorsteinsson situr yfir í næstu umferð og fær fyrir það hálfan vinning.

Mótstöflu má nálgast á Chess-Results.

B-flokkur

Dawid Kolka (1897) og Dagur Andri Friðgeirsson (1858) eru efstir með 3½ vinning. Dawid vann Guðmund Kristinn Lee (1897) örugglega en Dagur Andri (1858) hafði betur gegn Agnari Tómasi Möller (1894).  Þeir mætast í næstsíðustu umferð.

Tvíburabræðurnir, Bárður Örn (1954) og Björn Hólm (1962) eru í 3.-7. sæti með 3 vinninga ásamt Hrund Hauksdóttur (1777), Snorra Þór Sigurðssyni (1845) og Birki Karli Sigurðssyni (1812).

Stefán Briem (1360) heldur áfram að ná góðum úrslitum og gerði í gær jafntefli við Kristófer Gautason (1653).

Mótstöflu má finna á Chess-Results.