Fjórða umferð hins bleksterka Nóa-Siríus móts (Gestamóts Hugins og Skákdeildar Breiðabliks) hefst kl. 19.00 í kvöld. Vænta má magnþrunginnar spennu þegar kapparnir hamast við að velta kóngi hver annars úr sessi með brakandi heilastarfsemi og bellibrögðum í öllum regnbogans litum.
Eftirlæti þjóðarinnar, Friðrik Ólafsson keppir við fremstu skákkonu landsins Lenku Ptácníkovu. Þar getur orðið áhugaverð barátta á listrænum nótum fagurkera. Skákmennirnir geðþekku Benedikt Jónasson og Jóhann Hjartarson leiða saman hesta sína. Benedikt hefur áður sýnt að hann er höfðingjadjarfur og vís til þess að veita stórmeistaranum sterka verðugt viðnám. Ekki kæmi á óvart þó að upp kæmi spænski leikurinn með harðri stöðubaráttu. Guðmundur Kjartansson mætir Magnúsi Erni Úlfarssyni. Báðir eru þeir baráttujaxlar miklir með úthald á við veðurbarinn sjómann á frystitogara – alls ekki ósennilegt að skákin fari yfir 100 leiki.
Þröstur Þórhallsson etur kappi við Dag Ragnarsson. Snarpir skákmenn báðir, stundum óþolinmóðir; stórmeistarinn svakalega útsjónarsamur og skeinuhættur í flóknum stöðum en Dagur vex með hverri raun. Gæti orði stutt senna en hörð. Ungstirnið efnilega Örn Leó Jóhannsson tekst á við Jón L. Árnason, fyrrum heimsmeistara unglinga. Þessi viðureign gæti orðið skemmtileg og víst að Örn Leó verður að eiga sinn allra besta dag til að ná að velgja stórmeistaranum sterka undir uggum.
Daði Ómarsson mætir félaga sínum úr TR, Birni Þorfinnssyni. Þetta verður mjög áhugaverð skák, Daði sérfræðingur mikill í byrjunum, nánast gangandi skábókasafn, og Björn rammvilltur sóknarskákmaður sem stefnir almennt að því að máta andstæðinginn í sem allra fæstum leikjum, óháð öllum kennisetningum byrjanafræðanna – og óháð mannafla sem honum finnst stundum bara þvælast fyrir. Hér er aðeins stiklað á stóru því að allar viðureignir kvöldsins lofa góðu um skemmtan mikla og góða.
Á efstu borðum í B-flokki mætast Birkir Karl Sigurðsson, Ástralíufari, og Hörður Aron Hauksson, báðir með fullt hús stiga. Jón Trausti Harðarson, stigahæsti keppandinn, tekst á við Stefán Orra Davíðsson, væntanlega af miklum þunga. Snillingarnir úr viðskiptalífinu, Jón Eggert Hallsson og Agnar Tómas Möller, fara í stífa hagkvæmniútreikninga einstakra afbrigða í huganum og ungstirnin Benedikt Briem og Óskar Víkingur Davíðsson reyna með sér af fullum krafti.
Á fimmta borði mætir skákmaðurinn knái Alexander Oliver Maí hinni bráðefnilegu skákkonu Svövu Þorsteinsdóttur, sem gerði sér lítið fyrir og hélt jöfnu við Jón Trausta Harðarson í umferðinni á undan. Ólafur Evert Úlfsson og Stephan Briem leiða saman hesta sína og þar verður án efa hart barist. Sömu sögu er að segja af viðreigninni á 7. borði þar sem ungstirnin Róbert Luu og Hrund Hauksdóttir geysast fram á köflótta borðið full sjálfstrausts og sigurvilja. Margt fleira verður skemmtilegt á sjá í þessum spennandi flokki!
Gestir eru velkomnir í Stúkuna á Kópavogsvelli. Sjá pörun á chess-results.com: http://chess-results.com/tnr257789.aspx?lan=1